Virðing og vinsældir

Það er ekki eigingirni, sjálfselska eða frekja að neita að taka þátt í einhverju sem þú kærir þig ekki um. Það gerir þú af virðingu fyrir sjálfri þér.

Þegar þú neitar að ljúga fyrir fólk, hylma yfir með framhjáhaldi, gefa peninga til málefnis sem þú styður ekki, kaupa eitthvað sem þú vilt ekki eða hlæja að bröndurum sem þér þykja ekki fyndnir, eykur það ef til vill ekki vinsældir þínar. Þú gætir jafnvel orðið fyrir ásökunum um að vera félagsskítur eða svikari.

Vanþóknun annara er ekki sérlega notaleg tilfinning og það þarf kjark til að standa með sjálfum sér, sérstaklega ef maður stendur einn. Þegar þú stendur með þér verður þú ánægð með þig og sjálfsvirðing þín styrkist.

Þegar þú svíkur sjálfa þig til að þóknast öðrum dregur úr sjálfsvirðingu þinni og þú verður óánægð með þig. Valið stendur milli þess að beygja sig undir vilja annara eða vera tímabundið leiðinleg. Hvort viltu?