Umhverfismengun

Fólk sem hefur tamið sér neikvæða lífsafstöðu og lítur heiminn mjög gagnrýnum augum getur haft afar lýjandi og niðurdrepandi áhrif á umhverfi sitt. Sífellt neikvætt tal um menn og málefni virkar líkt og andlegt ofbeldi og veldur getur haft áhrif lík þeim sem verða af andlegu ofbeldi. Vanlíðan, óöryggi, pirringur, þyngsli og vanlíðan. Þótt neikvæðninni sé ekki beint að viðmælandanum sjálfum, þá virkar hún eins og mengun sem síast inn án þess að eftir því sé tekið. Dæmi um svona neikvæðar athugasemdir (sem líta svo sem ósköp sakleysislega út) er: „Ég skil nú ekkert í þessu fólki að fá sér ekki nýjan bíl, þau eiga nóg af peningum,… er þetta ekki bara níska? „Það er alltaf sama skítaveðrið á þessu skeri.“ „Sjá hvernig gengið er um hérna! Kann þetta fólk ekki að nota ruslafötu?“ „Hrikalega hefur hún nágrannakona þín bætt á sig.“

Neikvæð og lítilvirðandi afstaða til fólks er ekki alltaf eins augljós og í dæmunum hér að ofan og stundum er erfitt að setja fingurinn á hvað það er sem angrar mann í tali manna því oft er bara verið að segja það sem er satt og rétt.

Í sumum starfsstéttum sem veita þjónustu fyrir fólk má gjarnan heyra talað um viðskiptavinina eins og þeir séu dýrahjörð og vísað til þeirra sem „það.“ Enn og aftur ósköp sakleysislegt og ekki illa meint; „það fær þarna allan mat og þjónustu og svo getur það horft á sjónvarp og því er séð fyrir lesefni en oftast vill það ekki lesa mikið, það er meira fyrir að horfa á sjónvarpið“ og „Það er flogið með það á áfangastað og síðan er því ekið upp í fjöllin og þar getur það fengið sér drykk eða kaffi ef það vill… en oftast vill það bara kakó.“

Allt tal á neikvæðum nótum, þar með talið slúður, gagnrýni og dómar um hvað eina sem fyrir ber, er skaðlegt andlegri og líkamlegri heilsu og það sem verra er, þessi kvilli er smitandi.