Tilfinningar og skoðanir

Í samfélagi sem dýrkar vitsmuni hafa tilfinningar verið vanræktar og lítilsvirtar. Við elskum skynsemi og reynum að beita henni á alla hluti, þar á meðal tilfinningar. Þegar við beitum skynseminni á tilfinningar hljómar það einhvern veginn svona: „Ég ætti nú ekki að vera svona sár yfir þessu, þetta er nú óþarfa tilfinningasemi,“ eða: „það er nú gagnslaust að vera að æsa sig yfir þessu. Skynsamlegast væri að hætta að hugsa um þetta.“

Svona tal er ekki vænlegt til til að bæta líðan manns en getur jafnvel gert hana verri. Þegar maður telur sér trú um að það sé eitthvað athugavert við hvernig manni líður er hætta á að maður fyrirverði sig fyrir tilfinningar sínar.

Gefum sjálfum okkur og öðrum leyfi til að hafa tilfinningar, sama hversu óskynsamlegar þær kunna að virðast.