Svo góð…

Ég vil ekki særa neinn. Ég vil ekki reita fólk til reiði. Ég vil bara hafa alla góða. Ég vil bara að öllum líði vel.“

Ef það er einlægur ásetningur þinn dag hvern að hafa alla góða og sjá til þess að engum líði illa, muntu verða fyrir vonbrigðum og þú leggst sennilega til hvílu að kvöldi, sár, reið og úrvinda. Ef þú einsetur þér að gera betur næsta dag mun sagan endurtaka sig og næsta dag og þar næsta dag eða þar til þú missir heilsuna.

Þú ert sú manneskja sem mikilvægast er að hafa góða. Ef þér tekst það eru minni líkur á að fólki sárni við þig eða reiðist þér. Og þótt einhver reiðist þér áttu auðveldara með að taka því ef þú ert sátt við þig. Þegar betur er að gáð er það nefnilega ótti þinn við andúð eða reiði annarra sem stjórnar þessari ofur góðsemi þinni.

Þú getur ekki stjórnað líðan annarra en þegar þér líður vel þykir fólki gott að vera í návist þinni. Þegar þú berð virðingu fyrir sjálfri þér, gera aðrir það líka og ef einhver reiðist þér, getur þú tekið því með stillingu.