Smá lygi

Vinkona mín var orðin þreytt á suði barna sinna um gæludýr. Hún brá á það ráð að segja þeim að hún hefði skyndilega fengið ofnæmi fyrir öllum dýrum. Þar með var suðið úr sögunni. Henni þótti hún hafa verið býna snjöll.

Seinna þurfti hún að leita til háls-nef- og eyrnalæknis vegna þráláts kvefs. Hún hafði dóttur sína með sér sem fylgdist grannt með öllu.

Læknirinn spurði vinkonu mina hvort hún hefði eitthvert ofnæmi. Vinkona mín svaraði sannleikanum samkvæmt að það hefði hún ekki. „Jú mamma“ greip þá dóttirin fram í: „Þú ert með ofnæmi fyrir hundum og köttum og hömstrum og fuglum og gullfiskum!“

Vinkona mín lærði dýrmæta lexíu: aldrei fara með börnin með þér til læknis… eða að við getum þurft að borga óþægilega fyrir smá lygi sem við grípum til… fyrir friðinn.

Það er lygi þegar við segjum börnunum okkar að þau geti ekki fengið nammið í búðinni vegna þess að .„maðurinn eigi það“. Það er líka lygi þegar við segjum þeim að maginn í þeim límist saman ef þau gleypa tyggjó eða þau hætti að vaxa ef þau borði kertavax.

Segjum börnunum okkar satt. Ef einföld neitun vefst fyrir okkur mæli ég með setningu sem ég lærði af leikskólakennara: „Það er ekki í boði.“