Sinnum sjálfum okkur

Það er ekkert göfugt við það að vinna þar til maður hnígur niður. Það er ekkert göfugt við það að neita sér um hvíld og næringu. Það er ekkert göfugt við það að sinna ekki þörfum sínum en vera stöðugt með alla anga úti við að bjarga öðrum. Það verðlaunar mann enginn fyrir að líða óþarfa skort eða þola heimatilbúnar þjáningar.

Ef við fórnum heilsu okkar og lífi við að sinna þörfum annara, þiggjum ekki hjálp og neitum okkur um alla gleði, verðum við ekki góðar manneskjur. Við verðum þreyttar og bitrar manneskjur. Við verðum engum til gleði og sjálfum okkur til ama og leiðinda. Við verðum fórnarlömb og píslarvottar.

Til að geta hjálpað öðrum svo vel fari, verðum við að sinna sjálfum okkur. Þegar við gætum þess að hvílast og nærast, bæði andlega og líkamlega, getum við vænst þess að það sé eitthvert gagn í okkur og vit í því sem við tökum okkur fyrir hendur. Aðeins með því móti getum við gefið af okkur með glöðu geði og verið ástvinum okkar raunverulegur styrkur.