Píslarvottar

Píslarvottar eru þeir sem “fórna sér” fyrir aðra en fá aldrei neitt í staðinn. Píslarvottar eru alltaf boðnir og búnir til að hjálpa en kvarta svo yfir því hvað fólk ætlast til mikils af þeim. Píslarvottar biðja aldrei nokkurn mann um neitt en fara í fýlu þegar þeir fá ekki það sem þeir vonuðust eftir.

Píslarvottar líta út fyrir að vera mjög göfugir og góðir en eru í raun frekir og stjórnsamir. Píslarvottar þykjast ekki hafa neinar þarfir en í raun eru það þeirra þarfir sem allt snýst um.

Píslarvottar láta sem þeim sé annt um alla og þjóni öllum en í eru í raun bitrir og sárir útí allt og alla. Píslarvottar láta líta út eins og þeir vinni góðverk sín í kyrrþey en segja öllum sem heyra vilja hvað þeir hafi lagt mikið á sig.

Píslarvottar vilja trúa því að góðverk þeirra séu sprottin af kærleika en í raun eru þeir reknir áfram af ótta og vanmætti. Píslarvottar þykjast ekki gera kröfur til nokkurs manns en segja svo frá því að fólki hafi “aldrei dottið í huga að bjóðast til að gera nokkurn skapaðan hlut fyrir þá”. Píslarvottar halda bókhald yfir greiðasemi annarra. Þeir fylgjast grannt með hvernig fólk stendur sig í hugulsemi og góðmennsku og þeir skrá hjá sér misgjörðir þess. Píslarvottar tjá ekki tilfinningar sínar aðrar en vandlætingu og sárindi og þeir gefa ekki upp langanir sínar eða þarfir. Píslarvottar ætlast til að fólk lesi hugsanir og þeir bíða eftir að einhver skynji þarfir þeirra og komi til móts við þær. Píslarvottar trúa því að “maður eigi ekki að þurfa að biðja um hlutina” og verða sífellt fyrir vonbrigðum þegar vinir og vandamenn bregðast í hugsanalestrinum.

Ef þú ert í nánum samskiptum við píslarvott átti ekki margra kosta völ. Þú getur valið milli stöðugrar sektarkennar eða undirgefni eða þú getur neitað að taka þátt í leiknum og sett þig meðvitað í hóp hinna tillitslausu…. án sektarkenndar.