Hver er munurinn á hugleiðslu og dáleiðslu?

Daglegu amstri fylgir oft mikil streita.  Við höfum skyldum að gegna, kannski í krefjandi vinnu eða með stórt heimili.

Stundum eru aðstæður okkar erfiðar, til dæmis geta fjárhagsáhyggjur eða eitthvað annað  valdið okkur kvíða.

Það er heilmikið álag á líkamann þegar kvíðahnútur í maga, spenntar taugar, vöðvabólga og aðrir fylgifiskar mikils andlegs álags eru viðvarandi svo dögum eða mánuðum skiptir.  Þessu álagi fylgir oft hröð hugsun sem getur orðið þráhyggjutengd og við það eykst álagið enn frekar.

Hugleiðsla er ævaforn aðferð sem við getum notað til að tæma hugann og ná innri ró. Líklegast er ekki hægt að útskýra hugleiðslu til hlítar, því upplifun hvers og eins er mjög persónuleg.  Mörgum aðferðum er beitt og sumar þeirra þekkjum við sem tískubólur í samfélaginu sem síðan ganga yfir  en í raun getur hver og einn mótað sér eigin aðferðir til hugleiðslu án mikillar aðstoðar.

Það getur verið snúið að tæma hugann ef mikil þráhyggja eða stjórnlaus hugsun og áhyggjur eru ráðandi.   Þá er oft gott að hefja hugleiðsluna á kyrjun.  Kyrjun er einföld aðferð til að stöðva hugsun.  Þá veljum við okkur einhverja einfalda setningu, trúaðir geta t.d. valið „guð er góður”, þeir trúlausu t.d. „sól og sumar” eða hvaðeina það sem okkur dettur í hug.  Gott er að setningin sé auðveld til að geta farið með hana aftur og aftur, upphátt eða í hljóði og þeir sem prófa þetta finna fljótt að það er ómögulegt að kyrja og einblína á áhyggjur á sama tíma!

Dáleiðsla er um margt svipuð.  En í dáleiðslu leyfir einstaklingur dáleiðara að fara fram hjá meðvitundinni  (Beta) sem við erum í þegar við erum vakandi og í erli dagsins.  Beta verndar undirmeðvitundina og á að vernda tilfinningar okkar, minningar og venjubundið áreiti.

Efsta stig undirmeðvitundar er kallað Alfa.  Mörg okkar fara á þetta stig t.d. þegar við lesum bók, horfum á bíómynd eða gleymum okkur.  Þá finnum við hvernig við förum “til baka” þegar einhver kallar á okkur eða síminn hringir.  Theta og Delta kallast stigin sem eru þar fyrir neðan.  Að dáleiða niður á þau getur verið mjög áhrifaríkt t.d. þegar verið er að takast á við langvarandi verki eða ef sleppa á deifingu á meðan tannviðgerð fer fram.

Dáleiðslumeðferð er oft góð þegar verið er að takast á við erfiðar minningar  og áföll sem fólk hefur  orðið fyrir á lífsleiðinni.  Þegar dáleiðslu er beitt með NLP (Neuro-linguistic programming) er oft hægt að ná bata á styttri tíma.

Þannig má segja að meginmunurinn á hugleiðslu og dáleiðslu er að hugleiðsla er gott tæki til að ná hugarró en dáleiðsla er notuð sem tæki til að vinna með áföll og erfiðar minningar.