Hvað er eðlilegt?

Ef það eru einhverjar aðstæður í lífi þínu sem fá þig til að spyrja: „Er þetta eðlilegt?“ er allt eins líklegt að svarið sé: „Nei.“

Ef það er eitthvað sem truflar þig, eitthvað sem stríðir gegn þinni betri vitund (jafnvel þótt fólkið í kringum þig segi að það sé í lagi), eitthvað sem þú skynjar sem óeðlilegt þá er þér, að öllu jöfnu, óhætt að treysta þeirri skynjun þinni.

Ef við höfum fengið að þroskast við eðlilegar aðstæður höfum við skýrar og ákveðnar hugmyndir um hvað sér rétt, fallegt, eðlilegt og gott. Hegðun eða aðstæður sem falla utan þess ramma, kalla fram hjá okkur óþægilega líðan. Ef við hunsum þessa óþæginda tilfinningu og treystum ekki skynjun okkar, getur þrýstingur annarra fengið okkur til að samþykkja óeðlilega hegðun. Slíkt getur, þegar til lengdar lætur, gert okkur veik, vansæl og óhamingjusöm.

Ef við höfum alist upp við óeðlilegar aðstæður geta hugmyndir okkar um hvað sé eðlilegt verið óljósar. Þá þurfum við að leita til annarra, fagfólks eða stuðningsaðila og fá lánaða dómgreind. Þegar við berum mál okkar undir aðra, komumst við ef til vill að því að dómgreind okkar er óskert en einungis vannýtt eða vanmetin.

Þegar við erum í vafa, spyrjum okkur þá: „Hvað finnst mér um þetta?“ Og ekki síður: „Hvernig líður mér með þetta?“