Meðvirknihópar

Meðvirknihópar undir handleiðslu ráðgjafa

Meðvirkni kemur fram á margvíslegan hátt en algengt er að meðvirkur einstaklingur upplifi sig fastan í einhverskonar óþægilegri tilveru og finnist hann ekki hafa mátt til að breyta neinu. Meðvirkur einstaklingur er einstaklingur sem er “háður” öðrum einstaklingi eða einstaklingum. Þetta eru oft einstaklingar sem hafa brotna sjálfsmynd og þekkja ekki mörk, hvorki eigin mörk né mörk annarra. Meðvirkir einstaklingar leita gjarnan eftir viðurkenningu annarra til þess að upplifa vellíðan og er stöðugt að þóknast öðrum þótt hann vilji það í raun og veru ekki. Hann treystir á aðra til að segja til um hverjar þarfir hans séu því að meðvirkir einstaklingar þekkja sjaldnast eigin þarfir en eru “hugsanalesarar” þegar kemur að þörfum annarra. Allur kraftur fer í að passa upp á “hamingju annarra” frekar en sína eigin.

Meðvirkir einstaklingar kenna sjálfum sér um þegar illa fer. Þeim finnst erfitt að vera einir, segja ekki skoðun sína vegna hræðslu um að vera hafnað og ljúga til þess að verja og hylma yfir með þeim sem þeir elska. Meðvirkir einstaklingar finna oft fyrir stöðugum kvíða, án þess að geta tengt það við neitt sérstakt, eiga erfitt með að tengjast öðrum og njóta lífsins, og geta ekki séð að það séu þeir sem þurfa að breyta einhverju til þess að þeim geti liðið betur.

Meðvirkni þarf ekki að einskorðast við aðstandendur vímuefnaneytenda; til dæmis getur hún líka einkennt aðstandendur þar sem aðrar fíknir eru, geðsjúkdómar eða aðrir erfiðleikar og þar sem erfið hegðun er  í fjölskyldu

Í meðvirknihópunum er unnið að lausnum frá meðvirkni á einstaklingsmiðaðan hátt. Farið er í samskipti, tilfinningar, mörk, ábyrgð og fleira sem gjarnan verður óljóst þegar meðvirkni er alsráðandi. Stór partur af því að vinna sig frá meðvirkni er að byggja upp sjálfsmynd sína á markvissan máta og því er unnið með fólk á lausnarmiðaðan hátt sem styrkir sjálfsmynd hvers og eins.

Meðvirknihópar eru undir handleiðslu ráðgjafa og eru einu sinni í viku í einn og hálfan tíma í senn.

Mánaðargjald í hópana er 6000 kr