Hugræn atferlismeðferð

Hugræn atferlismeðferð (HAM) er sálfræðimeðferð sem hvílir á traustum grunni rannsókna. Í meðferðinni er áhersla lögð á að leysa núverandi vanda með markvissum vinnubrögðum. Hugræn atferlismeðferð nær til margvíslegra vandamála og sjálfstyrkingar.

Langvarandi veikindi eða erfiðleikar í fjölskyldu valda oft andlegri vanlíðan og hefur HAM nálgun verið gagnleg fyrir fólk í þeim sporum. Hægt að nýta margt úr HAM til að hjálpa fólki að halda virkni, vera lausnamiðað og forðast niðurrífandi hugsanir. Hugræn atferlismeðferð getur bæði verið sniðin að ákveðnum geðröskunum s.s. fælni eða þunglyndi og þá eru mismunandi áherslur í meðferðinni eftir því t.d. hvort verið er að glíma við félagsfælni eða langvinnt þunglyndi. HAM er líka notuð til uppbyggingar og sjálfseflingar fyrir einstaklinginn eða til að vinna með samskiptavanda í fjölskyldu. Atferlismeðferð er einnig mikið notuð í uppeldisnámskeiðum og atferlismótun vegna erfiðrar hegðunar er ríkjandi í inngripum hjá börnum með þroskaraskanir. HAM hefur gefist vel við athyglisbresti og ofvirkni (ADHD) bæði hjá börnum og fullorðnum.

Markmiðin geta beinst að ýmsum þáttum s.s. TILFINNINGUM t.d. að draga úr kvíða, reiði eða þunglyndi; HUGSUNARHÆTTI t.d. að læra betri leiðir til að leysa vanda eða losa sig við niðurdrepandi hugsanir sem leiða til vanlíðanar; VENJUM t.d. að breyta matar- eða áfengisvenjum eða verða félagslega virkari; SAMSKIPTUM t.d. að draga úr samskiptavanda fólks; LÍKAMLEGUM eða læknisfræðilegum vandamálum t.d. að takast á við bak- eða höfuðverk eða hjálpa fólki til að fara að læknisráðum.

Hugræn atferlismeðferð er form sem virkar hratt og algengast er að meðferðalengd sé frá 6 upp í 16 skipti. Mælt er með að byrja þétt en lengja svo tíma milli skipta svo einstaklingurinn geti tileinkað sér aðferðina í daglegu lífi.

Í Hugrænni atferlismeðferð eru bæði meðferðaraðili og skjólstæðingur virkir og töluvert er af verkefnavinnu sem unnin er milli viðtala.