Sektarkennd

Sektarkennd er innbyggð í okkur.  Hún er nátengd siðferðiskenndinni okkar og þar með réttlætisskenndinni.   Sektarkennd hjálpar okkur að leiðrétta gjörðir okkar.  Hún minnir okkur á ef við höfum gert á hlut annarra.  Hún hvetur okkur til að leiðrétta misgjörðir okkar.  Sektarkenndin er því nauðsynleg öllum þeim sem vilja lifa heilbrigðu lífi og í góðum tengslum við vini og ættingja.

En sektarkenndin getur verið löskuð.  Þeir sem eru til dæmis siðblindir upplifa síður eða alls ekki sektarkennd.  Þeir geta ekki sett sig í spor annars fólks og sjá þvi ekki hvað eða hvort þeir hafi gert eitthvað rangt.  Blessunarlega eru fæst okkar siðblind en slæm siðferðisvitund getur þó orðið vandamál hjá þeim sem ánetjast vímuefnum.

Þegar sektarkennd laskast, til dæmis í  æsku, getur hún stundum orðið sjálfvirk.  Þannig getur ákveðið viðmót eða áherslur eða til dæmis tónn í tali fólks framkallað sjálfvirka sektarkennd.  Þá upplifum við að við höfum gert eitthvað rangt án þess að nokkur ástæða sé til þess.

Margir rugla saman sektarkennd og skömm.  Yfirleitt er sektarkennd tengd atburðum eins og ákvörðunum, samtölum, frestun eða misminni.  Með öðrum orðum þá höfum við brugðist einhverjum þannig að við upplifum sektarkennd.  En sektarkenndin getur umbreyst í skömm á þann veg að við viljum ekki segja nokkrum manni frá sök okkar.  Við skömmumst okkar fyrir gerðir okkar.  Það er mjög meiðandi að lifa lífi þar sem sektarkennd er ráðandi.  Það er ekki aðeins meiðandi fyrir þann sem upplifir hana því slæm líðan okkar hefur áhrif á umhverfið.

Ef við upplifum sektarkennd er það versta sem við gerum, að rífa okkur niður fyrir gerðir okkar.  Þá er hætt við að við búum okkur til slæma og oft varanlega vanlíðan.  Við erum mannleg og þess vegna gerum við stundum mistök.  Miklu betra er að gangast við þeim og leiðrétta þau, biðjast afsökunar eða bæta fyrir brot okkar.

Eðlileg sektarkennd er hinsvegar gott tæki sem við getum nýtt okkur.  Best er að vinna með þá hegðun okkar sem kallar fram sektarkennd.   Við skoðum hvernig hægt er að laga viðbrögð okkar og skoðum hvort sektarkenndin sé byggð á raunveruleikanum.  Við leitumst við að skilja á milli sektarkenndar og skammar því það hjálpar okkur að þroskast tilfinningalega.

Það er skemmtilegt að vinna tilfinningavinnu því árangurinn skapar vellíðan og sjálfsvirðingu.

Páll Þór Jónsson –  Fjölskylduhús

Hvernig er sjálfsmyndin?

Sjálfsmynd okkar skiptir  lykilmáli þegar kemur að góðri líðan og eðlilegum samskiptum við aðra.  Ef sjálfsmyndin er löskuð er hætt við að við berum okkur saman við aðra og notum í raun sjálfsmynd annarra til að finna út hvar við stöndum gagnvart þeim.  Þá er mjög algengt að við setjum okkur annað hvort skör neðar en aðrir og finnum til smæðar eða teljum okkur stærri eða meiri og finnumst við vera  æðri öðrum.  Þetta skapar erfiðleika í samskiptum á jafningjagrundvelli og hætta eykst á vandræðum, misskilningi og rifrildi við annað fólk.

Mörg okkar finna fyrir minnimáttarkennd eða öfund  í annarra garð.  Okkur finnst við vanmáttug og lítil.  Þetta er vægast sagt óþægileg upplifun og getur framkallað reiði og sjálfsvorkunn.  Við réttlætum hugsun okkar og reynum jafnvel að finna einhvern sem samþykkir líðan okkar.  Við erum viðkvæm fyrir áliti annarra ef það snýst gegn okkur.  Þá verðum við reið og sár og finnum oft fyrir höfnunarkennd.  Við upplifum oft  skömm en reynum af fremsta megni að afneita henni.   Skömminni fylgja gjarnan leyndarmál en þau geta orsakað vanlíðan til lengri tíma sem getur leitt til þunglyndis og líkamlegra óþæginda eins og vöðvabólgu og streitu.

Í sumum tilfellum teljum við okkur öðrum æðri.  Okkur finnst við á einhvern hátt sterkari eða flottari.  Þá er hætt við að við gerumst hrokafull og upplifum jafnvel vellíðan og  gleði.  En vellíðan sem byggð er á þessum forsendum er jafnan skammvinn og við eigum það til að fara aftur niður í vanlíðan.  Það er ekki gott að byggja eigin sjálfsmynd á öðrum.

Það er nauðsynlegt að treysta á heilbrigða sjálfsmynd sem byggir á eigin verðleikum, ekki annarra.  Við höfum öll einhverja hæfileika, mismikla, en hæfileika sem við getum verið ánægð með og þakklát fyrir.  Við getum reynt að byggja upp jákvætt hugarfar, lært að vera til staðar fyrir aðra, sýnt umburðarlyndi í stað dómhörku, virt þarfir okkar og langanir og leitast við að sinna þeim eftir efnum og aðstæðum.

Við getum ástundað þakklæti.  Það er svo margt í lífinu sem við getum verið þakklát fyrir þrátt fyrir erfiðleika.

Heilbrigð sjálfsmynd minnkar depurð og kvíða.  Hún framkallar bjartsýni og styrk.  Okkur líður vel í eigin skinni.  Það er líðan sem er eftirsóknarverð.

Páll Þór Jónsson – Fjölskylduhús

Um skakka ábyrgðarkennd

Við erum öll fædd með ábyrgðarkennd.  Í uppvextinum lærum við að þroska og þróa ábyrgð okkar.  Lítið barn lærir smám saman að takast á við ábyrgð í smáum skömmtum.   Það er hlutverk uppalenda að gæta þess að ábyrgðarkennd barna nái að þroskast eðlilega.   En við sem erum fullorðin erum sumhver sjálf með skakka ábyrgðarkennd.

Skakkri ábyrgð er hægt að skipta í tvennt.  Ýkt ábyrgð og lítil eða skert ábyrgð.

Ýkt ábyrgðarkennd lýsir sér til dæmis þannig að við upplifum að við berum ábyrgð á einstaklingum, atburðum eða aðstæðum sem við nánari skoðun stenst ekki.  Við sem höfum upplifað ýkta ábyrgðarkennd eigum ekki auðvelt með að koma auga á hana en í sumum tilfellum afneitum við því.  Auk þess viljum við réttlæta slíkar aðstæður.

Dæmi:  Það er eðlilegt að við gætum þess að vekja barnið okkar til að það mæti á réttum tíma í skólann.  Við gætum þess að barnið hafi með sér hollt nesti og að það klæðist í samræmi við veður.  Þetta er allt saman eðlilegt, ef barnið er til dæmis 8 ára.  En ef barnið okkar er orðið 27 ára þá er þetta orðið frekar einkennilegt.  En mörgum okkar gengur illa að gangast við því .  Við upplifum að viðkomandi fari sér að voða ef við hættum þessu!  Í þessu dæmi er ábyrgðarkenndin orðin að stjórnsemi og afskiptasemi.  Við berum ábyrgð á einstaklingi sem ætti að öllu jöfnu að vera búinn að læra að bera ábyrgð á sjálfum sér fyrir löngu.

Skert ábyrgðarkennd lýsir sér hinsvegar þannig að við teljum og réttlætum að einhver annar beri ábyrgð á okkur þrátt fyrir að vera fullorðnir einstaklingar.  Við getum upplifað þetta á ýmsa vegu.

Dæmi: Við upplifum að einstaklingur tali ógætilega til okkar.  Hér erum við ekki að tala um andlegt ofbeldi heldur hitt að við túlkum skilaboð eða samskipti sem niðurlægjandi.  Við notum þennan atburð til að réttlæta vanlíðan okkar í (mis)langan tíma á eftir.  Einhver særði okkur og okkur sárnar og gremst það.  Þannig erum við búin að ákveða að viðkomandi beri ábyrgð á líðan okkar, hann særði okkur og við höfum því lögmæta ástæðu til að líða illa.  Auðvitað getur framkoma annarra stundum verið meiðandi en það er okkar að bera ábyrgð á eigin líðan.

Heilbrigð ábyrgðarkennd miðast við að rækta hana þannig að við berum ábyrgð á sjálfum okkur.  Ef við eigum börn undir 18 ára aldri þá berum við vissulega ábyrgð á þeim, en gætum þess að þau axli eigin ábyrgð eftir því sem þau vaxa og dafna.   Ef við eigum í ástarsambandi, berum við sameiginlega ábyrgð með hinum aðilanum.  Við öxlum ábyrgð á vinnu okkar en gætum þess að taka ekki á okkur ábyrgð sem telst utan starfsrammans og svo hæfileg að við ráðum við hana á hverjum tíma.

Með því að vinna í ábyrgðarkennd og rækta hana, fáum við aukið sjálfstraust og sjálfsvirðingu og samskipti okkar við annað fólk verða mun auðveldari.

Páll Þór Jónsson

Hér eru góð ráð til foreldra

Ráð til foreldra sem nýtast til að efla sjálfsmynd barna.

Foreldrar þekkja börnin sín best og leggja sig alla fram við að gefa þeim gott veganesti út í lífið. Mikilvægt er að foreldrar hafi gott sjálfstraust og hlusti á innsæi sitt við uppeldi barna sinna. Foreldrar eru mikilvægustu fyrirmyndir barna sinna því börn læra af því sem fyrir þeim er haft og því geta foreldrar byggt upp sterka sjálfsmynd hjá börnum sínum með eigin athöfnum.

Börnin heyra og sjá hvernig foreldrar bregðast við daglegum athöfnum í lífinu:

Gættu orða þinna, börn eru næm á orð foreldra sinna. Mikilvægt er að hrósa börnum fyrir vel gerða vinnu en jafn mikilvægt er að hrósa fyrir átakið sem þau lögðu á sig til að framkvæma. T.d ef eitthvað mistekst hjá barninu þá er gott að hrósa því fyrir að reyna, það byggir upp trú hjá barninu um að æfingin skapi meistarann.

Börn læra það sem fyrir þeim er haft. Ef foreldri er neikvætt og niðurbrjótandi í eigin garð er það lærdómurinn sem barnið nemur. Foreldrar eru speglar barna sinna. Vertu jákvæð fyrirmynd.

Vertu með skýr en sanngjörn mörk, börn upplifa öryggi í mörkunum. Börn vita til hvers er ætlast af þeim þegar mörk eru skýr en óljós mörk valda þeim óöryggi og jafnvel kvíða. Börn sem búa við skýr mörk eru líkleg til þess að tileinka sér góðan sjálfsaga og verða sterkir einstaklingar.

Gefðu barninu þínu tíma, talaðu við það og hlustaðu á það. Börn vilja fá að hafa skoðun og vilja að hlustað sé á þau. Það að hlusta á barn þitt þýðir ekki að þú segir endilega já en það eflir barnið í að nefna langanir sýnar og læra að taka við svarinu hvort sem svarið er nei eða já. Útskýrðu fyrir barninu þínu af hverju svarið er nei eða já. Börn læra líka að bera virðingu fyrir öðrum þegar borin er virðing fyrir þeim. Að hlusta á aðra manneskju er að sýna virðingu.

Sýndu barninu tilfinningar þínar og samþykktu tilfinningar þess. Tilfinningalegt uppeldi er mjög mikilvægt. Það styrkir sjálfsmynd að barn þekki tilfinningar sínar og fái viðurkenningu fyrir því að það sé eðlilegt að upplifa bæði jákvæðar og neikvæðar tilfinningar.

Verðu tíma með barninu þínu. Börnum finnst gott að vera með foreldrum sínum og það á sér stað mikilvæg tengslamyndun í samverustundunum sem börn og foreldrar búa að alla tíð. Hafðu barnið með í athöfnum heimilisins, t.d. taka þátt í að ákveða hvað er í matinn. Gerið matartíma að samverustund þar sem allir fá innsýn inn í dag hvers annars.

Kristín Snorradóttir

Jaðarraskanir

ADHD- Athyglisbrestur með ofvirkni
Taugalífeðlisfræðileg truflun sem skiptist í þrjá þætti, athyglisbrest, ofvirkni og hvatvísi. Í stuttu máli lýsir röskunin sér á þann hátt að einstaklingurinn heldur illa einbeitningu, unir við verkefni í stutta stund, þolir illa áreiti frá umhverfinu, er gjarnan á iði og hefur mikla hreyfiþörf, truflar aðra með frammígripi og framkvæmir án þess að hugsa. Fylgikvillar röskunarinnar eru gjarnan námsörðuleikar, hegðunarvandkvæði, fíkniefnaneysla og afbrot.

Andstöðu-mótþróaþrjóskuröskun
Röskun sem þróast oft vegna ofvirkniröskunar á háu stigi og/eða vegna slakra uppeldiskilyrða. Einstaklingurinn missir stjórn á skapi sínu, neitar að fara að reglum, lendir oft í deilum við fullorðna, truflar aðra, ber ekki ábyrgð á eigin gjörðum og getur sýnt ofbeldisfulla hegðun. Fylgikvillar röskunarinnar eru námsörðugleikar, ofvirkni og áhættuhegðun sem hætta er á að þróist yfir í andfélagslegan persónuleika á fullorðinsárum.

Aspberger heilkenni
Taugalífeðlisfræðileg truflun sem tengist einhverfurófi. Einstaklingar með heilkennið eiga í erfiðleikum með að tengjast öðru fólki og því skortir mikið upp á félagshæfni þeirra. Þeir eru gjarnan með mjög sérkennileg áhugasvið og eru þá helteknir af áhuga, sýna þráhyggjukennda hegðun og þola illa breytingar. Hegðunarvandamál stafa oft af því að einstaklingurinn hefur ekki hæfnina til þess að lesa í aðstæður og annað fólk.

Áráttu- og þráhyggjuröskun
Röskunin einkennist af heitinu. Einstaklingur er með stöðugt endurteknar hugsanir og hvatir sem eru honum kvíðavaldandi. Önnur einkenni geta verið síendurteknar líkamlegar hreyfingar eða gjörðir.  Fylgikvillar eru þunglyndi og kvíði.

Hegðunarröskun
Hegðunarröskun þróast út frá öðrum vægari röskunum t.d.  ADHD-mótþróaþrjóskuröskun.

Hegðunarröskun lýsir sér í árásargirni gagnvart dýrum og mönnum. Einstaklingurinn er ofbeldisfullur, skemmir eignir og brýtur þær reglur sem honum þóknast. Fylgikvillar eru námsörðugleikar, ofvirkni, þunglyndi og vímuefnaneysla ásamt afbrotahegðun.

Lestrarröskun
Taugalífeðlisfræðilegir veikleikar á sviði máltjáningar og málþroska. Einstaklingurinn á erfitt með að læra stærðfræði og skrift, hefur lítið þol fyrir mótlæti og er gjarnan með brotna sjálfsmynd.

Tourette heilkenni
Lýsir sér með endurteknum vöðva- og taugakippum ( kækjum) og einstaklingurinn gefur frá sér hin ýmsu hljóð, oft mjög óviðeigandi hljóð. Fylgikvillar geta verið ADHD, árátta, þráhyggja, þunglyndi, kvíði og óviðeigandi félagsleg hegðun.

Sjálfsmynd barna hefur forvarnargildi

Sjálfsmynd barna hefur forvarnargildi.

Heilbrigð sjálfsmynd er sterkasta vopn hvers einstaklings til þess að takast á við þær áskoranir sem lífið býður upp á.

Börnum sem líður vel í eigin skinni eiga auðveldara með að standast neikvæðan hópþrýsting brosa oftar og njóta lífsins. Þessi börn eru bjartsýn og hugsa í lausnum og hafa gaman af að leysa úr þeim verkefnum sem fyrir þau eru lögð.

Aftur á móti er algengt að börn með veika sjálfsmynd þrói með sér kvíða og reiðitilfinningar. Börn sem hafa veika sjálfsmynd finnst þau oft vera lítils virði og og að þau geti ekki gert neitt rétt sem verður þess valdandi að þau verða döpur og einangra sig. Þau segja gjarnan “ég get ekki” þegar þeim eru rétt verkefni.

Forvarnargildi heilbrigðar sjálfsmyndar er mjög mikið.  Barn með öfluga sjálfsmynd getur staðist hópþrýsting unglingsáranna og sagt nei við óæskilegum áhrifum á líf sitt. Barn með veika sjálfsmynd er oft illa sett félagslega og fylgir því hópnum þó um óæskilega hegðun sé að ræða.

Kristín Snorradóttir

Upplýsingar um unglinga og vímuefni

Hvað getur bent til þess að barn sé byrjað að neyta vímuefna?

Það er eðlilegt að unglingur fari í smá uppreisn, þar sem partur af þroska unglingsáranna er að berjast fyrir sjálfstæði og slíta sig lausan frá foreldrum. Þegar þessi uppreisn gengur út í öfgar og unglingurinn sýnir ýktar breytingar þá er mikilvægt að foreldrar fylgist vel með þar sem það getur verið vísbending um vímuefnaneyslu.
Nokkur dæmi:

 • Ýktar breytingar á hegðun
 • Skapgerðarbreytingar
 • Skyndilegur mótþrói við aga á heimili eða í skóla, hættir að virða útivistarreglur
 • Dræm skólasókn og versnandi námsárangur eða ástundun í vinnu
 • Minni samskipti og/eða einangrun frá fjölskyldu og gömlum vinum
 • Nýr vinahópur sem kemur ekki með heim
 • Depurð eða óútskýranleg reiði
 • Almennt áhugaleysi og doði
 • Breyting á svefn- og matarvenjum
 • Mikil peningaþörf eða hnupl
 • Ósannsögli eða aukin leynd yfir athöfnum og eigum

Ef foreldra grunar að barn sé að nota vímuefni eða að feta braut annarrar áhættuhegðunar er vænlegast að setjast niður með viðkomandi og ræða við hann í kærleika en setja jafnframt skýr mörk í afstöðu sinni gagnvart vímuefnaneyslu. Jafnframt er gott fyrir foreldra að leita sér aðstoðar til þess að takast á við vandann.