Er fíll í stofunni hjá þér?

Í sumum fjölskyldum verða til fílar sem koma sér haganlega fyrir í stofunni. Fílar eru einstaklingar sem ná að að deila og drottna innan fjölskyldu og aðrir fjölskyldumeðlimir verða eins og tól og tæki við að þjónusta fílinn og sjá til þess að hann skorti ekkert.

Sumir halda að  fílar séu fyrst og fremst alkóhólistar eða fiklar.  En svo er alls ekki.  Fíllinn getur verið hvaða fjölskyldumeðlimur sem er.  Hann getur verið faðirinn, móðirin eða unglingurinn.  Hann getur verið þunglyndis- eða kvíðasjúklingur eða jafnvel þóst vera með slík einkenni, til þess eins að ná sínu fram.

Þegar  fíll kemur sér fyrir í fjölskyldunni nær hann þeirri stöðu að aðrir eru boðnir og búnir að þjóna þörfum og löngunum hans og gleyma að sjálfssögðu sjálfum sér.

Sumir  fílar stjórna með reiði en alls ekki allir. Aðrir stjórna með því að koma inn sektarkennd hjá heimilisfólkinu og enn aðrir gera út á samúð  fjölskyldumeðlima.  Fíllinn getur sýnt miklar tilfinningar til að ná sínu fram.  Hann getur látist vera þunglyndur aðeins til þess að kalla eftir samúð sem venjulegu fólki er í blóð borin.  Fíllinn hefur einstaka hæfileika í að spila með heimilisfólkið.

Fílar nota rafmagnaða þögn til að stjórna öðrum.  Þeir hunsa fólk og eiga mjög auðvelt með að setja einstaka fjölskyldumeðlimi í frost.  Einu gildir þó aðrir reyni slíkt hið sama, það virkar ekki á fílinn því honum er í raun sama um annað fólk.  Þetta vill hann seint viðurkenna og allra síst fyrir sjálfum sér.  Aðrir fjölskyldumeðlimir eru aðeins verkfæri sem fíllinn notar til að fá þá þjónustu sem hann telur sig  eiga heimtingu á.  Þarfir annarra finnast honum lítils virði.  Þeir sýna aðeins þeim vinsemd sem þeir ætla að nota.

Fílar telja sig vita allt betur en aðrir jafnvel þó þeir séu áratugum yngri en aðrir fjölskyldumeðlimir.  Þeim finnst reynsla annarra lítils virði og lítt áhugaverð.  Þeirra eigin reynsla er það sem gildir.  Það getur verið erfitt að eiga við fílinn.  Ef hann er fíkill er nánast ómögulegt að eiga við hann nema hann hætti neyslu og fari í meðferð.  Í sumum tilfellum dugir það ekki til en oftast virkar það vel.  Fíll sem gerir út á aðra þætti eins og depruð eða kvíða getur verið mjög slægur við að verja stöðu sína því það er eitt sterkasta einkenni  fílanna að þeir vilja einfaldlega vera fílar áfram!  Og oft eiga aðrir fjölskyldumeðlimir erfitt með að viðurkenna vandann.

Við mælum með að aðstandendur leiti sér hjálpar og styrks til að takast á við verkefnið.

Páll Þór Jónsson  –  Fjölskylduhús

Um fyrirgefningu

Flestar kenningar um það hvernig bæta megi líf sitt leggja áherslu á mikilvægi þess að geta fyrirgefið enda sé reiði og gremja heilsupillandi fyrir líkama og sál.

Fyrirgefning líkt og flest annað er einfalt mál þegar maður er barn. Þá er vandalítið að biðjast fyrirgefningar og fyrirgefa. Það eina sem getur flækt málið er að komst að samkomulagi um hver hafi byrjað og hver eigi að biðjast fyrirgefningar fyrst. Þá skynjar maður afsökunarbeiðni sem hálfgerðan ósigur og viðurkenningu á því að hafa verið aðalsökudólgurinn. Það mál leysist þegar lærist að biðjast afsökunar á eigin hegðun og sínum þætti í átökum án þess að taka á sig alla ábyrgðina á misklíðinni.

Á fullorðinsárum fyrirgefum við áreynslulítið börnum okkar óþekkt þeirra, ekki síst þegar þau iðrast og lofa bót og betrun og við fyrirgefum maka okkar hverskyns yfirsjónir. Við viljum gjarnan að okkur sé fyrirgefið þegar okkur verður á í messunni og við viljum yfirleitt frekar lifa í sátt og samlyndi en ófriði.

Með því að fyrirgefa segjum við að við munum ekki erfa það sem var gert á hlut okkar, að við séum tilbúin til að breiða yfir atvikið og helst ekki tala um það meir. Með fyrirgefningu viljum við og treysta því að atvikið endurtaki sig ekki og við viljum trúa því að sýnd iðrun sé sönn eða að það hafi ekki verið með vilja gert að særa eða meiða.

Áleitnar spurningar og vangaveltur um fyrirgefningu vakna þegar erfitt verður að fyrirgefa eða biðjast fyrirgefningar. Er hægt að fyrirgefa allt? Ætti maður að fyrirgefa allt? Hvað felst í því að fyrirgefa? Hvers vegna er stundum svo erfitt að fyrirgefa?

Það getur verið erfitt að fyrirgefa ef brotið er ekki viðurkennt, fyrirgefningarbeiðni er engin né heldur bætur fyrir skaðann. Ekki kærir maður sig heldur um að fyrirgefa ef manni þykir að með því leggi maður blessun sína yfir hegðun sem særði og geri þar með lítið úr þeim sársauka sem hún olli. Slíkt gæti þá jafnvel orðið þá til þess að sagan endurtæki sig. Loks getur manni þótt að með fyrirgefningu sé veitt einhverskonar syndaaflausn sem ekki sé í mannlegu valdi að veita.

Stundum er ekki skynsamlegt að fyrirgefa í þeim skilningi að breiða yfir, gleyma og leyfa öllu að verða eins og áður. Ef sá sem hefur brotið hefur framið er samviskulaus eða ofbeldisfullur og er ekki líklegur til að breytast, ætti ekki að samþykkja óbreytt ástand. Þá ætti maður forða sér og sínum en láta fyrirgefningu liggja milli hluta. Að minnsta kosti um sinn. Ekki ætti maður heldur að hafa samviskubit yfir því að geta ekki fyrirgefið eða finnast maður minni manneskja fyrir vikið. Í stað þess að reyna að fyrirgefa ætti maður heldur að leitast við að losna við gremju og græða sárin.

Ef maður setur sér það að markmiði að láta liðin atvik ekki valda frekari vanlíðan og erfa ekki það sem gert var á hlut manns, felur það ekki í sér samþykki verknaðarins né að gert sé lítið úr afleiðingum hans. Það þýðir ekki heldur að maður kjósi að viðhalda samskiptum né falla frá ósk um bætur.

Ef það er ekki í mannlegu valdi að veita syndaaflausn ætti maður að geta fallist á að það sé ekki heldur í manna valdi að útdeila dómum og refsingu. Um leið og látið er af kröfu um að fyrirgefa ætti maður að geta látið af þörf fyrir að refsa eða hefna. Ef fyrirgefning er einhversskonar syndaaflausn sem einungis er í valdi Guðs að veita, hlýtur dómur og refsing einnig að vera í valdi Guðs.

Þegar maður losar sig undan kröfunni um að fyrirgefa og lönguninni til að refsa, afsalar maður sér ábyrgð á því að fólk hljóti þau málagjöld sem maður helst vildi. Þá þarf maður hvorki að halda lífi í minningum um hið liðna né eyða tíma né orku í að rifja upp það sem gerðist eða lifa upp aftur sársauka og reiði. Þá þarf maður ekki að láta tilvist annarra eða misgjörðir þeirra spilla lífsgleði sinni.

Samt er það svo að óvelkomnar hugsanir hafa tilhneigingu til að elta mann uppi og liðin atvik leita á hugann. Kannski vegna þess að manni finnst eitthvað ógert eða ósagt eða maður hefur þörf fyrir frekari skilning á því sem gerðist. Meðan einhver von er um frekara uppgjör eða málalok sem maður getur sætt sig við getur verið erfitt að sleppa tökunum. Hvort sem von um slík málalok er raunhæf eða ekki er gagnslítið að viðhalda gremju meðan þeirra er beðið enda gæti sú bið orðið æði löng.

Ef leiðinda hugsanir og gremja truflar líf manns og lífsgleði er hér aðferð sem ég lærði fyrir mörgum árum og hefur reynst mér vel til að láta af óvelkomnum hugsunum. Hún felst í því að skrifa á miða það sem veldur hugarangri, nöfn fólks sem maður er ósáttur við og eins áhyggjuefni sem maður er vanmáttugur gagnvart. Hvert atriði fer á einn miða. Miðana brýtur maður saman og setur í krukku merkta Guði og treystir því að Guð muni sjá um þessi mál meðan maður sinnir öðru.

Þegar maður erfir ekki lengur neitt við neinn, ber ekki kala til nokkurs manns og hið liðna fær ekki hróflað sálarró manns, má segja að maður hafi fyrirgefið. Ef maður kýs að kalla það einhverjum öðrum nöfnum eða bara alls ekki neitt þá er það í góðu lagi. Það sem skiptir máli er að maður hefur öðlast frelsi frá reiði og beiskju og getur lifað í sátt við sjálfan sig, Guð og menn.

Ásta Kristrún Ólafsdóttir ráðgjafi og sálfræðingur

Hvað er fýla?

Fýla er ekki sorg, leiði, depurð eða söknuður. Fýla er stjórntæki. Þegar við getum ekki tjáð tilfinningar okkar notum við fýlu.

Við notum fýlu til að segja á óbeinan hátt að okkur sé misboðið og/eða til að refsa. Við notum fýlu til að ná völdum og valda vanlíðan hjá þeim sem við erum ósátt við.

Með fýlu getum við stjórnað andrúmslofti, líðan og hegðun fólks á heimili eða vinnustað um lengri eða skemmri tíma.

Þegar við notum fýlu forðumst við augnsamband við þann sem fýlan beinist að, við hættum að tala og svörum ekki.

Fýla virkar yfirleitt eins og henni er ætlað. Sá sem fyrir henni verður upplifir mikla vanlíðan. Hann finnur til höfnunar, sektarkenndar eða reiði.

Fýla er andlegt ofbeldi og samskipti sem einkennast af því eru óheiðarleg og skemmandi fyrir alla. Fýla er lítilsvirðandi, jafnt fyrir þann sem fyrir henni verður og þann sem beitir henni.

Hinn kosturinn er að segja satt, tjá tilfinningar sínar á heiðarlegan hátt, segja hug sinn og koma óskum sínum í orð.

Hvað er svona hættulegt við það?

Ásta Kristrún Ólafsdóttir – Fjölskylduhús

Hver er munurinn á hugleiðslu og dáleiðslu?

Daglegu amstri fylgir oft mikil streita.  Við höfum skyldum að gegna, kannski í krefjandi vinnu eða með stórt heimili.

Stundum eru aðstæður okkar erfiðar, til dæmis geta fjárhagsáhyggjur eða eitthvað annað  valdið okkur kvíða.

Það er heilmikið álag á líkamann þegar kvíðahnútur í maga, spenntar taugar, vöðvabólga og aðrir fylgifiskar mikils andlegs álags eru viðvarandi svo dögum eða mánuðum skiptir.  Þessu álagi fylgir oft hröð hugsun sem getur orðið þráhyggjutengd og við það eykst álagið enn frekar.

Hugleiðsla er ævaforn aðferð sem við getum notað til að tæma hugann og ná innri ró. Líklegast er ekki hægt að útskýra hugleiðslu til hlítar, því upplifun hvers og eins er mjög persónuleg.  Mörgum aðferðum er beitt og sumar þeirra þekkjum við sem tískubólur í samfélaginu sem síðan ganga yfir  en í raun getur hver og einn mótað sér eigin aðferðir til hugleiðslu án mikillar aðstoðar.

Það getur verið snúið að tæma hugann ef mikil þráhyggja eða stjórnlaus hugsun og áhyggjur eru ráðandi.   Þá er oft gott að hefja hugleiðsluna á kyrjun.  Kyrjun er einföld aðferð til að stöðva hugsun.  Þá veljum við okkur einhverja einfalda setningu, trúaðir geta t.d. valið „guð er góður”, þeir trúlausu t.d. „sól og sumar” eða hvaðeina það sem okkur dettur í hug.  Gott er að setningin sé auðveld til að geta farið með hana aftur og aftur, upphátt eða í hljóði og þeir sem prófa þetta finna fljótt að það er ómögulegt að kyrja og einblína á áhyggjur á sama tíma!

Dáleiðsla er um margt svipuð.  En í dáleiðslu leyfir einstaklingur dáleiðara að fara fram hjá meðvitundinni  (Beta) sem við erum í þegar við erum vakandi og í erli dagsins.  Beta verndar undirmeðvitundina og á að vernda tilfinningar okkar, minningar og venjubundið áreiti.

Efsta stig undirmeðvitundar er kallað Alfa.  Mörg okkar fara á þetta stig t.d. þegar við lesum bók, horfum á bíómynd eða gleymum okkur.  Þá finnum við hvernig við förum “til baka” þegar einhver kallar á okkur eða síminn hringir.  Theta og Delta kallast stigin sem eru þar fyrir neðan.  Að dáleiða niður á þau getur verið mjög áhrifaríkt t.d. þegar verið er að takast á við langvarandi verki eða ef sleppa á deifingu á meðan tannviðgerð fer fram.

Dáleiðslumeðferð er oft góð þegar verið er að takast á við erfiðar minningar  og áföll sem fólk hefur  orðið fyrir á lífsleiðinni.  Þegar dáleiðslu er beitt með NLP (Neuro-linguistic programming) er oft hægt að ná bata á styttri tíma.

Þannig má segja að meginmunurinn á hugleiðslu og dáleiðslu er að hugleiðsla er gott tæki til að ná hugarró en dáleiðsla er notuð sem tæki til að vinna með áföll og erfiðar minningar.

 

Hér er fjallað um sómakennd.

Hvað er sómakennd?   Hjálpar sómakennd okkur í lífinu?  Viljum við hafa sómakennd og hvað færir hún okkur?

Sómakennd er nátengd siðferðiskennd.  Við sjáum sóma okkar í að viðurkenna og leiðrétta mistök.  Sómakenndin er einnig nátengd sjálfsvirðingu okkar og hvernig við viljum að aðrir sjái okkur.

Það er öllum hollt að vinna með og skoða sómakenndina.  Hvað finnst okkur í lagi?  Erum við að réttlæta hegðun okkar og líta framhjá sómakenndinni?  Helgar tilgangurinn meðalið?

Heiðarleiki er einn af hornsteinum sómakenndar.  Heiðarleiki eflir einnig sjálfsvirðingu og hjálpar okkur að öðlast traust samferðafólks okkar.  Oft finnst okkur auðveldara að nota svolitla “hvíta lygi” til að komast hjá óþægilegum aðstæðum.  Þá erum við hins vegar heiðarleg, ekki aðeins við annað fólk heldur ekki síður við sjálf okkur og þá löskum við sjálfsvirðinguna og sómakenndina.

“Hefurðu enga sómakennd”?  Þannig hljómar ein þekktasta setning bandarískrar stjórnmálasögu en hún var sögð í kjölfar þess að  þingmaður notaði lygar, gróusögur og uppspuna við að koma höggi á andstæðinga sem hann bjóað stærstu leyti til sjálfur.

Við erum ekki fullkomin.  Við erum öll mannleg og gerum mistök.  En það er gott að rækta sjálfan sig og setja sér markmið í lífinu og hvað er fegurra en að rækta með sér betri sómakennd?  Við bætum sjálf okkur og eigum betra með að vera til staðar fyrir fólkið okkar, vini og ættingja.

Þegar maður skoðar sómakenndina er auðveldast að skoða hvað það er sem byggir upp sómakennd.  Eftirfarandi listi er hugmynd að sómakennd eða því hvernig við getum byggt hana upp.

Sómakenndin byggist á:

  • Að vera heiðarlegur, bæði við aðra og sjálfan sig.
  • Að treysta sjálfum sér og treysta fólki sem er traustsins vert.
  • Að vera ábyrgur gerða sinna og bera ábyrgð á því sem maður tekur að sér.
  • Að vera til staðar fyrir ástvini sína.
  • Að sýna sjálfum sér og öðru fólki virðingu.
  • Að vera umburðarlyndur.
  • Að vera kærleiksríkur
  • Að elska án skilyrða.

Þessi listi er ekki tæmandi en allir ættu að reyna að skoða hvernig sómakenndin er og hvað má bæta.  Heilbrigð og öflug sómakennd gefur okkur meiri orku og bjartsýni og heldur depurð og kvíða í skefjum.

Páll Þór Jónsson – Fjölskylduhús

Vinnum á kvíðanum

Kvíði er óþægileg tilfinning sem við viljum gjarnan vera án.  Samt er heilbrigður kvíði oft þarfur og er til merkis um verkefni  sem þarf að vanda og hvetur okkur til að gæta að okkur og leita upplýsinga og aðstoðar ef með þarf.  Góður undirbúningur og heilbrigð skynsemi hjálpar mörgum að losa sig við kvíða án vandkvæða.

En í sumum tilfellum verður kvíði óraunhæfur og getur oft orðið að viðvarandi ástandi.  Þá er nauðsynlegt að skoða hvað veldur og athuga hvernig best er að vinna með kvíðann.

Í grunninn er kvíði tengdur einhverju sem við eigum ógert.  Vinnukvíða þekkja margir og upplifa þá að þeim finnist verkefni vera óyfirstíganlegt og eiga í erfiðleikum með að skoða raunhæft hve erfitt verkefnið sé.

Viðvarandi kvíði er oft nátengdur trausti.  Stundum treystum við ekki sjálfum okkur til að framkvæma og seljum okkur þá hugmynd að okkur skorti þrótt eða getu.  Í öðrum tilfellum byggjum við upp kvíða þegar við teljum okkur ekki geta treyst á annað fólk.

Kvíði er einnig tengdur ábyrgðarkennd.  Ef við göngumst í ábyrgð fyrir of  stórum verkefnum eða þá að við dettum í þá gryfju að ábyrgjast aðra einstaklinga um of, þá gerir kvíðinn vart við sig.  Þetta á einnig við ef við tökum ekki ábyrgð á okkur sjálfum og gætum þess ekki  að sinna þörfum okkar.  Þá verður kvíðinn oft viðvarandi.

En sumar myndir kvíða eru mjög faldar og erfitt að koma auga á tengingar hans við aðrar tilfinningar.  Sjálfsgagnrýni er oft upphafin sem dyggð.  Svo er ekki þvi hjá meðvirkum einstaklingum verður sjálfsgagnrýni oftar en ekki að miskunnarlausu sjálfsniðurrifi sem skemmir og meiðir sjálfsmyndina.  Öfgafyllsta mynd sjálfsniðurrifs er sjálfshöfnun eða höfnun á eigin líkama.  Allar þessar myndir geta framkallað stanslausan kvíða sem skerðir lífsgæði og sjálfsvitund okkar.

Kvíðinn sjálfur getur síðan hindrað okkur í að vinna okkur frá honum.  Við óttumst að takast á við hann og hræðumst afleiðingarnar.  Það er dæmi um ranghugmyndir sem oft gera vart við sig.  En því fylgir mikill léttir og frelsun að vinna sig frá þessu ástandi.  Oftast er nauðsynlegt að leita sér einhverskonar hjálpar hjá þeim sem skilja og vita hvernig hægt er að vinna á kvíðanum svo að lífið komist í betra horf.

Það er einsog að stíga út í yndislegan vordag að losna frá langvarandi kvíða og það hefur mikil áhrif á þann sem það gerir en ekki síður á vini og vandamenn sem oftar en ekki sjá árangurinn í skilvirkari, betri og skemmtilegri samskiptum við þann sem átti við langvarandi kvíða að stríða.

Páll Þór Jónsson – Fjölskylduhús

Að þóknast öðrum

Þóknun er áhugavert og um margt flókið hlutverk sem margir gangast inn í umhugsunarlaust.  Að þóknast öðrum þýðir að við leggjum eign þarfir til hliðar og leggjum allt í að gera aðra glaða, jafnvel þó það skapi okkur sjálfum vaníðan.  Í mörgum tilfellum getur það verið í fínu lagi en ef við leggjum það í vana okkar að fórna eigin þörfum til að þóknast öðrum, erum við að meiða sjálfsmyndina okkar og sjálfsvirðingin skekkist.  Það er sterk tenging á milli andlegrar vanlíðunar eins og depurðar og kvíða við þóknun.

En er ekki sjálfsagt að hjálpa öðrum?  Er það þókun að vera hjálpsamur og taka tillit til annars fólks?  Svarið er nei.  Þóknun er ekki það sama og að vera kærleiksríkur við annað fólk og að vera hjálpsamur og umburðarlyndur einstaklingur.  Slíkir eiginleikar eru kostir sem vert er að rækta og efla og gefa okkur vellíðan auk þess sem samskipti okkar við annað fólk verða betri.

En á þóknun sér engar málsbætur?   Jú, stundum koma upp aðstæður þar sem við þurfum að grípa inn í, alvarleg veikindi í fjölskyldunni til dæmis, og við leggjum þarfir okkar til hliðar, tímabundið til að sinna ástvini.  En þóknun má ekki verða viðvarandi ástand því þá erum við farin að vanrækja okkur.

Það getur verið snúið að koma auga á þóknun í eigin fari.  Hún er mörgum okkar svo eðlislæg því hún ræktaðist inn í okkur í barnæsku.  Okkur var mörgum kennt að það væri göfugt að gleðja aðra.  Sem það er en að fórna eign þörfum á sama tima á í mörgum tilfellum að vera hreinn óþarfi.  Þóknun er líka snúin því við fáum oftar en ekki mikið hól fyrir og það þykir okkur gott.  En ef þóknunin er orðin langvinn þá endist sú vellíðan skammt því innra með okkur finnum við tómleika, skömm og ýmsar aðrar óþægilegar tilfinningar.

Mörg okkar nota þóknun til að tryggja að öðru fólki líki við okkur.  Og við óttumst afleiðingarnar ef við hættum að þóknast.  Hvað mun annað fólk segja um okkur?  En þá erum við farin að stjórnast um of af áliti annarra og sjálfsálit okkar er sett til hliðar.

Það fylgir því mikill árangur og vellíðan að vinna með og ná tökum á langvinni þóknun.  Við áttum okkur smám saman á mörkum okkar og annarra og við áttum okkur á hvar ábyrgð okkar á að liggja.

Páll Þór Jónsson – Fjölskylduhús

Áhrif hugsana á eigin líðan

 Fæst okkar eru meðvituð um eigin hugsanir og áhrif þeirra á okkur en auðveldlega má auka þessa meðvitund og fara að hlusta á hugsanir sínar sem er fyrsta skrefið í þá átt að velja sér hugsanir.

Staldraðu við og hlustaðu á eigin hugsanir:

Nú hugsa sumir, það er ekki hægt! Aðrir hugsa með sér þetta hljómar spennandi.

Það er mismunandi hvaða hugsanir koma upp hjá hverjum og einum þegar þeir lesa þetta og þær hugsanir sem koma upp eru ósjálfráðar hugsanir. Nú þegar þú veist það muntu geta gripið þessar hugsanir og staldrað við.

Prófaðu svo að hugsa um eitthvað verulega sorglegt eða erfitt tímabil í lífi þínu. Þegar þú gerir það finnurðu hvaða áhrif það hefur á líðan þína, tilfinningar fara af stað. Ef þú hugsar um eitthvað sem virkilega reyndi á þig gætirðu jafnvel farið að gráta.

Prófaðu núna að hugsa um eitthvað sem er verulega jákvætt og skemmtilegt, eitthvað spennandi. Finndu hvernig yfir þig kemur vellíðan og góðar tilfinningar magnast.

Þessi litla tilraun sýnir okkur fram á það að hugsanir hafa áhrif á tilfinningar og þar með á líðan okkar.

Í hugrænni atferlismeðferð er unnið með hugsanir út frá því að hugsanir hafi áhrif á tilfinningar (líðan) sem hefur svo áhrif á hegðun.

Hegðun okkar einkennist af líðan okkar.

Þegar okkur líður vel erum við framtaksamari, jákvæðari og orkumeiri. Við hugsum jákvætt og horfum björtum augum fram á veginn. Við leysum þau verkefni sem fyrir okkur liggja og eyðum ekki orku í óþarfa áhyggjur. Sjálfsmyndin styrkist.

Aftur á móti þegar okkur líður illa þá erum við orkulítil, afköstum minna og okkur finnst framtíðin frekar dökk. Við sjáum frekar það neikvæða og vandamálin verða stærri og áhyggjurnar meiri. Sjálfsmyndin veikist.

Æfðu þig að hugsa jákvætt því æfingin skapar meistarann.

Kristín Snorradóttir – Fjölskylduhús

Fróðleikur um skömm

Skömm er tilfinning sem við fæðumst með.  Hún hjálpar okkur að leitast við að gera betur og getur hvatt okkur til betri verka.  Okkur þykir skammartilfinning óþægileg og hún á að vera það.

Mörg okkar eiga í vanda með að skilja á milli skammar og sektarkenndar og oft eru skilin óskýr.  En sektarkenndin er fremur verkefnatengd. Við  gerum á hlut einhvers og hún sendir okkur skilaboð um að bæta ráð okkar.

Skömmin er mun leyndari enda er það eitt  af höfuðeinkennum hennar að vilja vera leyndarmál.  Við viljum ekki að annað fólk viti hvernig við erum!

Skömmin er líka nátengd annarri tilfinningu sem snýr að  áliti annarra á okkur.  Við viljum að öðru fólki líki við okkur. Það er okkur eðlislægt en verði álit annarra á okkur að drifkraftinum í lífinu, erum við komin í veruleg vandræði.  Þá hættum við að stjórnast af því hvað okkur er fyrir bestu en förum að láta ímyndað álit annarra stjórna ferðinni.

Skömm getur snúið bæði inn á við og út á við.  Við getum í sumum tilfellum fundið fyrir skömm gagnvart okkar nánustu. Unglingar skammast sín stundum fyrir foreldrana til dæmis.  Enn og aftur er álit annarra á okkur, drifkrafturinn.

En við getum líka skammast okkar fyrir eigin vangetu, efnahagslega stöðu, litla menntun, útlit eða hvaðeina það sem hægt er að tína til.  Slík skömm er afar meiðandi í okkar eigin garð.  Hún framkallar brotið sjálfsmat, ótta, vanlíðan, sjálfsvorkunn, depurð og fleiri neikvæðar tilfinningar.  Þegar skömmin fær að næra okkur á þann veg skapar hún mikið sjálfsniðurrif , efa og kvíða.  Óttinn við höfnun getur orðið sjúklegur þegar skömm, leyndarmál og óttinn við álit annarra taka höndum saman.

Það er mjög mikilvægt að vinna með skömm.  Það getur verið mjög snúið og best er að vinna með hana með einhverjum sem þekkir eyðileggingarmátt hennar.  Að losna frá skömm er einstaklega frelsandi.  Það er eins og að losna við risastóra keðju sem hefur haldið okkur föstum.

Að losna frá skömm framkallar bjartsýni og von.  Við fyllumst orku og framkvæmdagleði  og vandamálin verða frekar að verkefnum sem hægt er að leysa. Þá  finnum við okkur betur í samfélagi við annað fólk, finnum að við erum jafningjar sem höfum ýmislegt fram að færa.

Páll Þór Jónsson – Fjölskylduhús