Fýla

Fýla er ekki sorg, leiði, depurð eða söknuður. Fýla er stjórntæki. Þegar við getum ekki tjáð tilfinningar okkar notum við fýlu.

Við notum fýlu til að segja á óbeinan hátt að okkur sé misboðið og/eða til að refsa. Við notum fýlu til að ná völdum og valda vanlíðan hjá þeim sem við erum ósátt við.

Með fýlu getum við stjórnað andrúmslofti, líðan og hegðun fólks á heimili eða vinnustað um lengri eða skemmri tíma.

Þegar við notum fýlu forðumst við augnsamband við þann sem fýlan beinist að, við hættum að tala og svörum ekki.

Fýla virkar yfirleitt eins og henni er ætlað. Sá sem fyrir henni verður upplifir mikla vanlíðan. Hann finnur til höfnunar, sektarkenndar eða reiði.

Fýla er andlegt ofbeldi og samskipti sem einkennast af því eru óheiðarleg og skemmandi fyrir alla. Fýla er lítilsvirðandi, jafnt fyrir þann sem fyrir henni verður og þann sem beitir henni.

Hinn kosturinn er að segja satt, tjá tilfinningar sínar á heiðarlegan hátt, segja hug sinn og koma óskum sínum í orð.

Hvað er svona hættulegt við það?

Stjórnleysi

Kannski tengjum við hugtakið stjórnleysi eingöngu við hömlulausa áfengisneyslu eða óviðráðanlegan tilfinningaofsa. En stjórnleysi er ekki bara það að drekka of mikið eða missa sig í geðshræringu. Stjórnleysi er þegar við, ítrekað, stöndum ekki við það sem við ætlum okkur að gera en gerum svo það sem við ætlum okkur ekki að gera.

Þegar kraninn á baðinu hefur lekið í nokkra mánuði, gjöfin til barnsins sem fermdist í fyrra er enn upp í skáp og það verður ekkert úr því að geysmslan sé tekin í gegn, þá er líf okkar kannski dálítið stjórnlaust. Við höfum heldur ekki mikla stjórn á lífinu ef við missum sífellt af leikritum sem okkur langar að sjá, líkamsræktarkortin rykfalla uppi á ísskáp og við erum á síðustu stundu með skattskýrsluna… eins og alltaf.

Æi ég ætla alltaf að… Ég á enn eftir að… Ég kem því aldrei í verk að…“„Nú þyrfti ég að fara að ….“ Hvað stoppar okkur? Það sem stoppar okkur stjórnar lífi okkar og það er til mikils að vinna að finna út hvað það er!

Hvað veldur því að við stöndum ekki við það sem við ætlum okkur. Hvernig stendur á því að við höldum áfram að gera hluti sem við höfum ákveðið að hætta að gera. Af hverju tuðum við og nöldrum þegar við vitum að það gerir ekkert gagn og engum gott? Hvað fær okkur til að vera í samskiptum sem meiða okkur? Af hverju getum við ekki hætt að hugsa um mistök sem okkur hefur orðið á og hvers vegna segjum við „já“ þegar við meinum „nei?“

Þegar við höfum komist að því hvað stjórnar lífi okkar eigum við von til þess að taka við stjórninni.

Ekki mér að kenna

Okkur finnst erfitt að biðjast afsökunar á framkomu þegar við getum réttlætt hegðun okkar á einhver hátt: að okkur hafi verið ögrað, einhver annar hafi byrjað og verið miklu orðljótari en við og þetta hafi ekki verið okkur að kenna. Við hefðum aldrei hagað okkur svona eða látið svona ljót orð falla nema af því að…….

Okkur finnst erfitt að biðjast afsökunar ef okkur finnst að með því séum við að játa yfirsjónir okkar fyrir „óvininum“ til þess eins að hann geti hrósað sigri og þóst hafa rétt fyrir sér.

Við getum beðist afsökunar á okkar eigin þætti í misklíð og á því sem við sjáum eftir að hafa sagt eða hvernig við sögðum það. „Ég biðst afsökunar á orðum mínum“ þýðir ekki „þetta var allt mér að kenna“. Við öxlum ábyrgð á þvi sem er okkar, okkar hegðun og okkar orðum.

Afsökunarbeiðni okkar er borin fram án tillits til þess hvað hinn aðilinn kann að gera eða segja. Það eru vonbrigði þegar afsökunarbeiðni er illa tekið en við tökum þá áhættu af æðruleysi því með þvi að gangast við misgjörðum okkar, iðrast og biðjast afsökunar höfum við endurheimt sjálfsvirðingu okkar.

Heimskulegar spurningar

Okkur hættir til að taka upp, gagnrýnis- og hugsunarlaust, talsmáta foreldra okkar í samskiptum við okkar eigin börn. Það veltur þá á því hvað okkur var kennt, hvernig tekst til með uppeldi barna okkar.

Ef vel er að gáð, segjum við stundum hluti við börnin okkar sem hafa litla þýðingu og leggjum fyrir þau heimskulegar spurningar sem ekki eru til nein svör við. Þetta eru spurningar sem foreldrar okkar lögðu fyrir okkur og koma því eins og sjálfkrafa þegar líkar aðstæður koma upp og þegar við vorum lítil. Dæmi um þetta er þegar við krefjum börnin okkar um rök fyrir löngunum sínum og spyrjum þá kannski: „Af hverju viltu ekki fara að sofa?“ eða „Af hverju viltu ekki fisk?“ Hvað vakir fyrir okkur þegar við spyrjum svona?

Við getum ekki krafist þess af nokkrum manni, barni eða fullorðnum að hann geti útskýrt eða fært rök fyrir löngunum sínum. Ef okkur langar eitthvað eða langar ekki eitthvað, þá er það bara þannig. Langanir eru bara langanir og við getum litlu ráðið um þær. Þær eru þarna bara og við vitum ekki alltaf hvers vegna okkur langar eitt frekar en annað.

Börn hafa fundið bráðsnjallt svar við svona vitlausum spurningum: „Af því bara!“ Því miður kunnum við foreldrar sjaldnast að meta það svar og segjum þá gjarnan með þjósti: „Það er ekkert svar!“

Þegar barnið reynir að finna betra svar eins og: „af því að fiskur er vondur“ er kominn grundvöllur fyrir þrasi sem margir kannast við: „Hvaða vitleysa, fiskur er ekkert vondur.“ „Jú, hann er víst vondur“………………..

Annað dæmi um ógáfulega spurningu er þegar við spyrjum barn sem er í „frekjukasti“: „Af hverju lætur þú svona?“ Það væri býsna skondið ef barnið svaraði: „Jú, sjáðu til mamma mín, ég er að styrkja sjálfsmynd mína og kanna mörkin með þvi að reyna að komast eins langt og ég get en það er þitt hlutverk að stoppa mig!“

Að hafa rétt fyrir sér.

Fólk á ekki að tala um það semðþað hefur ekki vit á!“ „Fólk á ekki að hafa fáránlegar skoðanir.“ „Fólk á að taka tillit til annara og sýna kurteisi.“ „Fólk á ekki að hafa fordóma eða aðhyllast rangar hugmyndir.“ „Ef fólk veður í villu er það mitt að leiðrétta það.“

Það er lýjandi að hafa skoðanir á því hvernig annað fólk á að vera. Það er fullt starf að láta sér finnast eitthvað um alla hluti og reyna að leiðrétta ranghugmyndir heimsins. Ef við höfum mikla þörf fyrir að telja fólk á réttar skoðanir okkar er það ekki endilega af göfugum hvötum. Oft er það einungis vegna þess að við erum svo óörugg með okkur sjálf og/eða skoðanir okkar að við þurfum að fá allan heiminn í lið með okkur til að vera sátt. Þegar svo er, þolum við illa að okkur sé andmælt og við komumst í geðshræringu við það að verja sjónarmið okkar og skoðanir. Þá verðum við að sýna og sanna að við höfum rétt fyrir okkur og helst ekki gefast upp fyrr en við fáum samþykki allra viðstaddra fyrir skoðunum okkar.

Þegar við erum sátt við okkur sjálf getum við hætt þessu streði og leyft öðrum að lifa, hugsa og mynda sér skoðanir án okkar íhlutunar. Við getum meira að segja gefið fólki leyfi til að vera á annarri skoðun en við og það snertir okkur ekki hið minnsta þótt sjónarmið okkar eða skoðanir séu gagnrýnd.

Við getum haft rétt fyrir okkur eða verið hamingjusöm.

Fórnarlömb

Þessi pistill er ekki um raunveruleg fórnarlömb ofbeldis, slysa eða sjúkdóma. Þessi pistill er um lífsafstöðu sem snýst um að vera fórnarlamb. Sá sem velur að vera fórnarlamb lætur sem hann sé síendurtekið og saklaus beittur ranglæti, frekju eða yfirgangi og geti litla björg sér veitt.

Hann kvartar yfir óbærilegum aðstæðum, óþolandi fólki og langvarandi þjáningum en gerir ekkert í því. Fórnarlamb „nýtur“ þess að segja frá ranglætinu sem það hefur mátt þola og lætur líta út eins og það sé göfugt að láta vaða yfir sig á skítugum skónum.

Fórnarlömb taka gjarnan vini sína í gíslingu og gera þá að fórnarlömbum. Helstu fórnarlömb fórnarlamba eru „aumingjagóðir“ sakleysingjar og góðhjartaðir og umhyggjusamir einstaklingar. Sá sem festist í neti fórnarlambs reynir að finna lausnir á vanda þess. Hann tekur að sér að vera reiður útí kvalara þess, setja mörk fyrir fórnarlambið og leita réttar þess. Hann gefur fórnarlambinu óspart af tíma sínum og kröftum og jafnvel fjármunum.

Þegar hinn aumingjagóði verður þreyttur á óbreyttri stöðu fórnarlambsins þrátt fyrir alla hjálpina, verður hann pirraður, sár og ergilegur og getur farið að upplifa sig sem fórnarlamb ef hann ekki forðar sér. Ef hann yfirgefur fórnarlambið reynir það að vekja hjá honum sektarkennd og meðaumkun. Nái það ekki tilætluðum árangri leitar fórnarlambið á önnur mið og kvartar sáran yfir svikum vinar síns við þá sem vilja hlusta.

Fórnarlömb og þeir sem taka að sér fórnarlömb þurfa að læra að axla ábyrgð á sjálfum sér og engum öðrum eða að lifa og leyfa öðrum að lifa.

Vansældarfíkn

Margir kannast við að eiga erfitt með að gleðjast eða vera hamingjusamir. Sumum er svo tamt að vera óhamingjusamir og vansælir að þeir telja sig haldna „vansældarfíkn.“ Vansældarfíklar hafa þó enga sérstaka nautn af því að vera vansælir og segja gjarnan: „ég vildi óska að ég gæti verið hamingjusamur“ eða „mig langar bara til að vera glöð.“

Þegar vansældarfíkill er inntur eftir hvers vegna hann megi ekki eða geti ekki verið hamingjusamur eru svörin af ýmsu tagi. Hér eru nokkur sýnishorn: „ég get ekki verið glaður af því ég skulda, af því ég er ekki búin í námi, af því ég á ekki maka, af því ég er á ómögulegan maka, eða af því vinnan mín er leiðinleg.“ „Ég get ekki verið hamingjusamur af því ég hef ekki náð markmiðum mínum, hef ekki staðið mig eða hef sektarkennd.“ „Ég get ekki verið hamingjusöm af því maki minn er eigingjan og sjálfselskur, af því mamma mín skilur mig ekki, af því ég átti svo ömurlega æsku eða af því börnin mín eru erfið.“ „Ég á ekki skilið að vera glöð af því ég hef verið leiðinleg, vond, óréttlát og löt eða af því ég er ekki byrjuð í leikfimi eða af því ég á eftir að brjóta saman þvott og eldhúsgólfið er skítugt.“ Kannski má ég ekki vera glöð af því einhver annar gæti notið góðs af því. Kannski þarf ég að láta heiminn vita að mér líður illa eða að minnsta kosti einhvern eða einhverja ákveðna einstaklinga í heiminum.

Ef ég leyfi mér að vera glöð verður mér refsað fyrir það síðar. Það gerist alltaf eitthvað hræðilegt og þá er betra að vera undir það búinn. Það er ábyrgðarlaust og léttúðugt að vera glaður.“

Ef ofantalið er gildar ástæður fyrir þvi að vera vansæll, hvað myndi þá gerast ef maður leyfði sér að vera glaður þrátt fyrir þessar „gildu ástæður.“

Um fyrirgefningu

Flestar kenningar um það hvernig bæta megi líf sitt leggja áherslu á mikilvægi þess að geta fyrirgefið enda sé reiði og gremja heilsupillandi fyrir líkama og sál.

Fyrirgefning líkt og flest annað er einfalt mál þegar maður er barn. Þá er vandalítið að biðjast fyrirgefningar og fyrirgefa. Það eina sem getur flækt málið er að komst að samkomulagi um hver hafi byrjað og hver eigi að biðjast fyrirgefningar fyrst. Þá skynjar maður afsökunarbeiðni sem hálfgerðan ósigur og viðurkenningu á því að hafa verið aðalsökudólgurinn. Það mál leysist þegar lærist að biðjast afsökunar á eigin hegðun og sínum þætti í átökum án þess að taka á sig alla ábyrgðina á misklíðinni.

Á fullorðinsárum fyrirgefum við áreynslulítið börnum okkar óþekkt þeirra, ekki síst þegar þau iðrast og lofa bót og betrun og við fyrirgefum maka okkar hverskyns yfirsjónir. Við viljum gjarnan að okkur sé fyrirgefið þegar okkur verður á í messunni og við viljum yfirleitt frekar lifa í sátt og samlyndi en ófriði.

Með því að fyrirgefa segjum við að við munum ekki erfa það sem var gert á hlut okkar, að við séum tilbúin til að breiða yfir atvikið og helst ekki tala um það meir. Með fyrirgefningu viljum við og treysta því að atvikið endurtaki sig ekki og við viljum trúa því að sýnd iðrun sé sönn eða að það hafi ekki verið með vilja gert að særa eða meiða.

Áleitnar spurningar og vangaveltur um fyrirgefningu vakna þegar erfitt verður að fyrirgefa eða biðjast fyrirgefningar. Er hægt að fyrirgefa allt? Ætti maður að fyrirgefa allt? Hvað felst í því að fyrirgefa? Hvers vegna er stundum svo erfitt að fyrirgefa?

Það getur verið erfitt að fyrirgefa ef brotið er ekki viðurkennt, fyrirgefningarbeiðni er engin né heldur bætur fyrir skaðann. Ekki kærir maður sig heldur um að fyrirgefa ef manni þykir að með því leggi maður blessun sína yfir hegðun sem særði og geri þar með lítið úr þeim sársauka sem hún olli. Slíkt gæti þá jafnvel orðið þá til þess að sagan endurtæki sig. Loks getur manni þótt að með fyrirgefningu sé veitt einhverskonar syndaaflausn sem ekki sé í mannlegu valdi að veita.

Stundum er ekki skynsamlegt að fyrirgefa í þeim skilningi að breiða yfir, gleyma og leyfa öllu að verða eins og áður. Ef sá sem hefur brotið hefur framið er samviskulaus eða ofbeldisfullur og er ekki líklegur til að breytast, ætti ekki að samþykkja óbreytt ástand. Þá ætti maður forða sér og sínum en láta fyrirgefningu liggja milli hluta. Að minnsta kosti um sinn. Ekki ætti maður heldur að hafa samviskubit yfir því að geta ekki fyrirgefið eða finnast maður minni manneskja fyrir vikið. Í stað þess að reyna að fyrirgefa ætti maður heldur að leitast við að losna við gremju og græða sárin.

Ef maður setur sér það að markmiði að láta liðin atvik ekki valda frekari vanlíðan og erfa ekki það sem gert var á hlut manns, felur það ekki í sér samþykki verknaðarins né að gert sé lítið úr afleiðingum hans. Það þýðir ekki heldur að maður kjósi að viðhalda samskiptum né falla frá ósk um bætur.

Ef það er ekki í mannlegu valdi að veita syndaaflausn ætti maður að geta fallist á að það sé ekki heldur í manna valdi að útdeila dómum og refsingu. Um leið og látið er af kröfu um að fyrirgefa ætti maður að geta látið af þörf fyrir að refsa eða hefna. Ef fyrirgefning er einhversskonar syndaaflausn sem einungis er í valdi Guðs að veita, hlýtur dómur og refsing einnig að vera í valdi Guðs.

Þegar maður losar sig undan kröfunni um að fyrirgefa og lönguninni til að refsa, afsalar maður sér ábyrgð á því að fólk hljóti þau málagjöld sem maður helst vildi. Þá þarf maður hvorki að halda lífi í minningum um hið liðna né eyða tíma né orku í að rifja upp það sem gerðist eða lifa upp aftur sársauka og reiði. Þá þarf maður ekki að láta tilvist annarra eða misgjörðir þeirra spilla lífsgleði sinni.

Samt er það svo að óvelkomnar hugsanir hafa tilhneigingu til að elta mann uppi og liðin atvik leita á hugann. Kannski vegna þess að manni finnst eitthvað ógert eða ósagt eða maður hefur þörf fyrir frekari skilning á því sem gerðist. Meðan einhver von er um frekara uppgjör eða málalok sem maður getur sætt sig við getur verið erfitt að sleppa tökunum. Hvort sem von um slík málalok er raunhæf eða ekki er gagnslítið að viðhalda gremju meðan þeirra er beðið enda gæti sú bið orðið æði löng.

Ef leiðinda hugsanir og gremja truflar líf manns og lífsgleði er hér aðferð sem ég lærði fyrir mörgum árum og hefur reynst mér vel til að láta af óvelkomnum hugsunum. Hún felst í því að skrifa á miða það sem veldur hugarangri, nöfn fólks sem maður er ósáttur við og eins áhyggjuefni sem maður er vanmáttugur gagnvart. Hvert atriði fer á einn miða. Miðana brýtur maður saman og setur í krukku merkta Guði og treystir því að Guð muni sjá um þessi mál meðan maður sinnir öðru.

Þegar maður erfir ekki lengur neitt við neinn, ber ekki kala til nokkurs manns og hið liðna fær ekki hróflað sálarró manns, má segja að maður hafi fyrirgefið. Ef maður kýs að kalla það einhverjum öðrum nöfnum eða bara alls ekki neitt þá er það í góðu lagi. Það sem skiptir máli er að maður hefur öðlast frelsi frá reiði og beiskju og getur lifað í sátt við sjálfan sig, Guð og menn.

Píslarvottar

Píslarvottar eru þeir sem “fórna sér” fyrir aðra en fá aldrei neitt í staðinn. Píslarvottar eru alltaf boðnir og búnir til að hjálpa en kvarta svo yfir því hvað fólk ætlast til mikils af þeim. Píslarvottar biðja aldrei nokkurn mann um neitt en fara í fýlu þegar þeir fá ekki það sem þeir vonuðust eftir.

Píslarvottar líta út fyrir að vera mjög göfugir og góðir en eru í raun frekir og stjórnsamir. Píslarvottar þykjast ekki hafa neinar þarfir en í raun eru það þeirra þarfir sem allt snýst um.

Píslarvottar láta sem þeim sé annt um alla og þjóni öllum en í eru í raun bitrir og sárir útí allt og alla. Píslarvottar láta líta út eins og þeir vinni góðverk sín í kyrrþey en segja öllum sem heyra vilja hvað þeir hafi lagt mikið á sig.

Píslarvottar vilja trúa því að góðverk þeirra séu sprottin af kærleika en í raun eru þeir reknir áfram af ótta og vanmætti. Píslarvottar þykjast ekki gera kröfur til nokkurs manns en segja svo frá því að fólki hafi “aldrei dottið í huga að bjóðast til að gera nokkurn skapaðan hlut fyrir þá”. Píslarvottar halda bókhald yfir greiðasemi annarra. Þeir fylgjast grannt með hvernig fólk stendur sig í hugulsemi og góðmennsku og þeir skrá hjá sér misgjörðir þess. Píslarvottar tjá ekki tilfinningar sínar aðrar en vandlætingu og sárindi og þeir gefa ekki upp langanir sínar eða þarfir. Píslarvottar ætlast til að fólk lesi hugsanir og þeir bíða eftir að einhver skynji þarfir þeirra og komi til móts við þær. Píslarvottar trúa því að “maður eigi ekki að þurfa að biðja um hlutina” og verða sífellt fyrir vonbrigðum þegar vinir og vandamenn bregðast í hugsanalestrinum.

Ef þú ert í nánum samskiptum við píslarvott átti ekki margra kosta völ. Þú getur valið milli stöðugrar sektarkennar eða undirgefni eða þú getur neitað að taka þátt í leiknum og sett þig meðvitað í hóp hinna tillitslausu…. án sektarkenndar.

Virðing og vinsældir

Það er ekki eigingirni, sjálfselska eða frekja að neita að taka þátt í einhverju sem þú kærir þig ekki um. Það gerir þú af virðingu fyrir sjálfri þér.

Þegar þú neitar að ljúga fyrir fólk, hylma yfir með framhjáhaldi, gefa peninga til málefnis sem þú styður ekki, kaupa eitthvað sem þú vilt ekki eða hlæja að bröndurum sem þér þykja ekki fyndnir, eykur það ef til vill ekki vinsældir þínar. Þú gætir jafnvel orðið fyrir ásökunum um að vera félagsskítur eða svikari.

Vanþóknun annara er ekki sérlega notaleg tilfinning og það þarf kjark til að standa með sjálfum sér, sérstaklega ef maður stendur einn. Þegar þú stendur með þér verður þú ánægð með þig og sjálfsvirðing þín styrkist.

Þegar þú svíkur sjálfa þig til að þóknast öðrum dregur úr sjálfsvirðingu þinni og þú verður óánægð með þig. Valið stendur milli þess að beygja sig undir vilja annara eða vera tímabundið leiðinleg. Hvort viltu?

Ásta Ólafsdóttir sálfræðingur