Smá lygi

Vinkona mín var orðin þreytt á suði barna sinna um gæludýr. Hún brá á það ráð að segja þeim að hún hefði skyndilega fengið ofnæmi fyrir öllum dýrum. Þar með var suðið úr sögunni. Henni þótti hún hafa verið býna snjöll.

Seinna þurfti hún að leita til háls-nef- og eyrnalæknis vegna þráláts kvefs. Hún hafði dóttur sína með sér sem fylgdist grannt með öllu.

Læknirinn spurði vinkonu mina hvort hún hefði eitthvert ofnæmi. Vinkona mín svaraði sannleikanum samkvæmt að það hefði hún ekki. „Jú mamma“ greip þá dóttirin fram í: „Þú ert með ofnæmi fyrir hundum og köttum og hömstrum og fuglum og gullfiskum!“

Vinkona mín lærði dýrmæta lexíu: aldrei fara með börnin með þér til læknis… eða að við getum þurft að borga óþægilega fyrir smá lygi sem við grípum til… fyrir friðinn.

Það er lygi þegar við segjum börnunum okkar að þau geti ekki fengið nammið í búðinni vegna þess að .„maðurinn eigi það“. Það er líka lygi þegar við segjum þeim að maginn í þeim límist saman ef þau gleypa tyggjó eða þau hætti að vaxa ef þau borði kertavax.

Segjum börnunum okkar satt. Ef einföld neitun vefst fyrir okkur mæli ég með setningu sem ég lærði af leikskólakennara: „Það er ekki í boði.“

Andlegt ofbeldi

Ef þú ert slegin eða þér er hrint er augljóst að verið er að beita þig líkamlegu ofbeldi. Það er hins vegar ekki eins augsýnilegt ef þú ert beitt andlegu ofbeldi.

Andlegt ofbeldi er gjarnan mjög lúmskt eða dulið og því erfitt að koma auga á það. Skaðinn sem af því hlýst er þó ekki minni en sá sem hlýst af líkamlegu ofbeldi og sárin undan andlegu ofbeldi gróa ekki eins auðveldlega og hin líkamlegu sár.

Andlegt ofbeldi er framkoma, með eða án orða, sem vísvitandi eða óviljandi, veldur andlegum sársauka eða vanlíðan eða er skynjuð þannig af þeim sem fyrir henni verður.

Ef þú finnur til undan framkomu einhvers hefur þú skynjað þá framkomu sem andlegt ofbeldi. Tilfinningar þínar og skynjun virka þá sem viðvörunarkerfi sem lætur þig vita ef verið er að brjóta á þér eða sýna þér lítilsvirðingu. Ef þú velur að gera athugasemd við meiðandi framkomu og færð þau svör að tilfinningar þínar séu óviðeigandi eða skynjun þín brengluð er verið að gera lítið úr þér og það er andlegt ofbeldi.

Ein afleiðing langvarandi andlegs ofbeldis er sú að viðvörunarkerfið bilar og við verðum annað hvort ofurviðkvæm eða ónæm fyrir framkomu annarra.

Oftast virkar viðvörunarkerfi okkar þó ágætlega og okkur er óhætt að taka mark á því.

Virðing og vinsældir

Það er ekki eigingirni, sjálfselska eða frekja að neita að taka þátt í einhverju sem þú kærir þig ekki um. Það gerir þú af virðingu fyrir sjálfri þér.

Þegar þú neitar að ljúga fyrir fólk, hylma yfir með framhjáhaldi, gefa peninga til málefnis sem þú styður ekki, kaupa eitthvað sem þú vilt ekki eða hlæja að bröndurum sem þér þykja ekki fyndnir, eykur það ef til vill ekki vinsældir þínar. Þú gætir jafnvel orðið fyrir ásökunum um að vera félagsskítur eða svikari.

Vanþóknun annara er ekki sérlega notaleg tilfinning og það þarf kjark til að standa með sjálfum sér, sérstaklega ef maður stendur einn. Þegar þú stendur með þér verður þú ánægð með þig og sjálfsvirðing þín styrkist.

Þegar þú svíkur sjálfa þig til að þóknast öðrum dregur úr sjálfsvirðingu þinni og þú verður óánægð með þig. Valið stendur milli þess að beygja sig undir vilja annara eða vera tímabundið leiðinleg. Hvort viltu?

Að vera mamma

Við viljum allt það besta fyrir börnin okkar. Við viljum að þau alist upp í öryggi og hlýju og vaxi úr grasi lífsglöð og sátt. Sumum okkar hættir til að gera of miklar kröfur í þessum efnum og megum þá helst ekki til þess vita að börnin okkar finni til, andlega eða líkamlega. Við viljum alltaf hafa þau glöð og hamingjusöm og þeim á aldrei að leiðast.

Þetta síðastnefnda var mér hjartans mál þegar sonur minn var yngri og ég hafði oft samviskubit yfir því að standa mig ekki nógu vel í því að finna upp á einhverju skemmtilegu. Ég ræddi þetta við vinkonu mína og hún sagði mér frá atviki sem varpaði fyrir mig nýju ljósi á „vandamálið.“

Það var á sunnudegi að vori og hún hafði skipulagt skemmtiferð niður að tjörn til að gefa öndunum. Þegar hún sagði syni sínum þessi áform svaraði hann: „Far þú bara niður að tjörn mamma mín, ég ætla að vera hér heima.“

Kannski eru hugmyndir okkar um „eitthvað skemmtilegt“ ekki endilega þær sömu og barnanna okkar og kannski þarf ekki alltaf að gera eitthvað skemmtilegt. Stundum er gott að gera ekki neitt. Þá lærir maður að hafa ofan af fyrir sjálfum sér og láta sér líða vel í eigin félagsskap.

Tilfinningar og skoðanir

Í samfélagi sem dýrkar vitsmuni hafa tilfinningar verið vanræktar og lítilsvirtar. Við elskum skynsemi og reynum að beita henni á alla hluti, þar á meðal tilfinningar. Þegar við beitum skynseminni á tilfinningar hljómar það einhvern veginn svona: „Ég ætti nú ekki að vera svona sár yfir þessu, þetta er nú óþarfa tilfinningasemi,“ eða: „það er nú gagnslaust að vera að æsa sig yfir þessu. Skynsamlegast væri að hætta að hugsa um þetta.“

Svona tal er ekki vænlegt til til að bæta líðan manns en getur jafnvel gert hana verri. Þegar maður telur sér trú um að það sé eitthvað athugavert við hvernig manni líður er hætta á að maður fyrirverði sig fyrir tilfinningar sínar.

Gefum sjálfum okkur og öðrum leyfi til að hafa tilfinningar, sama hversu óskynsamlegar þær kunna að virðast.

Umhverfismengun

Fólk sem hefur tamið sér neikvæða lífsafstöðu og lítur heiminn mjög gagnrýnum augum getur haft afar lýjandi og niðurdrepandi áhrif á umhverfi sitt. Sífellt neikvætt tal um menn og málefni virkar líkt og andlegt ofbeldi og veldur getur haft áhrif lík þeim sem verða af andlegu ofbeldi. Vanlíðan, óöryggi, pirringur, þyngsli og vanlíðan. Þótt neikvæðninni sé ekki beint að viðmælandanum sjálfum, þá virkar hún eins og mengun sem síast inn án þess að eftir því sé tekið. Dæmi um svona neikvæðar athugasemdir (sem líta svo sem ósköp sakleysislega út) er: „Ég skil nú ekkert í þessu fólki að fá sér ekki nýjan bíl, þau eiga nóg af peningum,… er þetta ekki bara níska? „Það er alltaf sama skítaveðrið á þessu skeri.“ „Sjá hvernig gengið er um hérna! Kann þetta fólk ekki að nota ruslafötu?“ „Hrikalega hefur hún nágrannakona þín bætt á sig.“

Neikvæð og lítilvirðandi afstaða til fólks er ekki alltaf eins augljós og í dæmunum hér að ofan og stundum er erfitt að setja fingurinn á hvað það er sem angrar mann í tali manna því oft er bara verið að segja það sem er satt og rétt.

Í sumum starfsstéttum sem veita þjónustu fyrir fólk má gjarnan heyra talað um viðskiptavinina eins og þeir séu dýrahjörð og vísað til þeirra sem „það.“ Enn og aftur ósköp sakleysislegt og ekki illa meint; „það fær þarna allan mat og þjónustu og svo getur það horft á sjónvarp og því er séð fyrir lesefni en oftast vill það ekki lesa mikið, það er meira fyrir að horfa á sjónvarpið“ og „Það er flogið með það á áfangastað og síðan er því ekið upp í fjöllin og þar getur það fengið sér drykk eða kaffi ef það vill… en oftast vill það bara kakó.“

Allt tal á neikvæðum nótum, þar með talið slúður, gagnrýni og dómar um hvað eina sem fyrir ber, er skaðlegt andlegri og líkamlegri heilsu og það sem verra er, þessi kvilli er smitandi.

Hvað er eðlilegt?

Ef það eru einhverjar aðstæður í lífi þínu sem fá þig til að spyrja: „Er þetta eðlilegt?“ er allt eins líklegt að svarið sé: „Nei.“

Ef það er eitthvað sem truflar þig, eitthvað sem stríðir gegn þinni betri vitund (jafnvel þótt fólkið í kringum þig segi að það sé í lagi), eitthvað sem þú skynjar sem óeðlilegt þá er þér, að öllu jöfnu, óhætt að treysta þeirri skynjun þinni.

Ef við höfum fengið að þroskast við eðlilegar aðstæður höfum við skýrar og ákveðnar hugmyndir um hvað sér rétt, fallegt, eðlilegt og gott. Hegðun eða aðstæður sem falla utan þess ramma, kalla fram hjá okkur óþægilega líðan. Ef við hunsum þessa óþæginda tilfinningu og treystum ekki skynjun okkar, getur þrýstingur annarra fengið okkur til að samþykkja óeðlilega hegðun. Slíkt getur, þegar til lengdar lætur, gert okkur veik, vansæl og óhamingjusöm.

Ef við höfum alist upp við óeðlilegar aðstæður geta hugmyndir okkar um hvað sé eðlilegt verið óljósar. Þá þurfum við að leita til annarra, fagfólks eða stuðningsaðila og fá lánaða dómgreind. Þegar við berum mál okkar undir aðra, komumst við ef til vill að því að dómgreind okkar er óskert en einungis vannýtt eða vanmetin.

Þegar við erum í vafa, spyrjum okkur þá: „Hvað finnst mér um þetta?“ Og ekki síður: „Hvernig líður mér með þetta?“

Svo góð…

Ég vil ekki særa neinn. Ég vil ekki reita fólk til reiði. Ég vil bara hafa alla góða. Ég vil bara að öllum líði vel.“

Ef það er einlægur ásetningur þinn dag hvern að hafa alla góða og sjá til þess að engum líði illa, muntu verða fyrir vonbrigðum og þú leggst sennilega til hvílu að kvöldi, sár, reið og úrvinda. Ef þú einsetur þér að gera betur næsta dag mun sagan endurtaka sig og næsta dag og þar næsta dag eða þar til þú missir heilsuna.

Þú ert sú manneskja sem mikilvægast er að hafa góða. Ef þér tekst það eru minni líkur á að fólki sárni við þig eða reiðist þér. Og þótt einhver reiðist þér áttu auðveldara með að taka því ef þú ert sátt við þig. Þegar betur er að gáð er það nefnilega ótti þinn við andúð eða reiði annarra sem stjórnar þessari ofur góðsemi þinni.

Þú getur ekki stjórnað líðan annarra en þegar þér líður vel þykir fólki gott að vera í návist þinni. Þegar þú berð virðingu fyrir sjálfri þér, gera aðrir það líka og ef einhver reiðist þér, getur þú tekið því með stillingu.

Sinnum sjálfum okkur

Það er ekkert göfugt við það að vinna þar til maður hnígur niður. Það er ekkert göfugt við það að neita sér um hvíld og næringu. Það er ekkert göfugt við það að sinna ekki þörfum sínum en vera stöðugt með alla anga úti við að bjarga öðrum. Það verðlaunar mann enginn fyrir að líða óþarfa skort eða þola heimatilbúnar þjáningar.

Ef við fórnum heilsu okkar og lífi við að sinna þörfum annara, þiggjum ekki hjálp og neitum okkur um alla gleði, verðum við ekki góðar manneskjur. Við verðum þreyttar og bitrar manneskjur. Við verðum engum til gleði og sjálfum okkur til ama og leiðinda. Við verðum fórnarlömb og píslarvottar.

Til að geta hjálpað öðrum svo vel fari, verðum við að sinna sjálfum okkur. Þegar við gætum þess að hvílast og nærast, bæði andlega og líkamlega, getum við vænst þess að það sé eitthvert gagn í okkur og vit í því sem við tökum okkur fyrir hendur. Aðeins með því móti getum við gefið af okkur með glöðu geði og verið ástvinum okkar raunverulegur styrkur.

Sjálfsvirðing

Kannski þekkjum við þetta hugtak eingöngu af afspurn. Kannski þekkjum við fólk sem við teljum búa yfir sjálfsvirðingu og þykjumst kannast við einkenni hennar. Kannski höfum við upplifað tímabil eða augnablik sjálfsvirðingar og kannski finnum við til sjálfsvirðingar oftar en ekki.

Við þekkjum sjálfsvirðingu þegar við finnum hana. Ef við höfum eignast sjálfsvirðingu er fátt, ef nokkuð, sem við viljum láta hana í skiptum fyrir. Sjálfsvirðing er betri en áfengi, betri en matur, betri en kynlíf, betri en súkkulaði.

Í sjálfsvirðingu felst fullvissa um verðleika okkar og manngildi. Sjálfsvirðing fær okkur til að sækjast eftir því að gera það sem er rétt, gott og fallegt. Sjálfsvirðing gerir okkur kleift að að bera virðingu fyrir öðrum og eiga ánægjuleg og gefandi samskipti við samferðafólk okkar.

Sjálfsvirðing hjálpar okkur til að skapa það sem okkur er ætlað og fyllir okkur lífsgleði og sköpunarmætti. Hún birtist okkur gjarnan sem gleði, kærleikur og friður.