Hvernig er sjálfsmyndin?

Sjálfsmynd okkar skiptir  lykilmáli þegar kemur að góðri líðan og eðlilegum samskiptum við aðra.  Ef sjálfsmyndin er löskuð er hætt við að við berum okkur saman við aðra og notum í raun sjálfsmynd annarra til að finna út hvar við stöndum gagnvart þeim.  Þá er mjög algengt að við setjum okkur annað hvort skör neðar en aðrir og finnum til smæðar eða teljum okkur stærri eða meiri og finnumst við vera  æðri öðrum.  Þetta skapar erfiðleika í samskiptum á jafningjagrundvelli og hætta eykst á vandræðum, misskilningi og rifrildi við annað fólk.

Mörg okkar finna fyrir minnimáttarkennd eða öfund  í annarra garð.  Okkur finnst við vanmáttug og lítil.  Þetta er vægast sagt óþægileg upplifun og getur framkallað reiði og sjálfsvorkunn.  Við réttlætum hugsun okkar og reynum jafnvel að finna einhvern sem samþykkir líðan okkar.  Við erum viðkvæm fyrir áliti annarra ef það snýst gegn okkur.  Þá verðum við reið og sár og finnum oft fyrir höfnunarkennd.  Við upplifum oft  skömm en reynum af fremsta megni að afneita henni.   Skömminni fylgja gjarnan leyndarmál en þau geta orsakað vanlíðan til lengri tíma sem getur leitt til þunglyndis og líkamlegra óþæginda eins og vöðvabólgu og streitu.

Í sumum tilfellum teljum við okkur öðrum æðri.  Okkur finnst við á einhvern hátt sterkari eða flottari.  Þá er hætt við að við gerumst hrokafull og upplifum jafnvel vellíðan og  gleði.  En vellíðan sem byggð er á þessum forsendum er jafnan skammvinn og við eigum það til að fara aftur niður í vanlíðan.  Það er ekki gott að byggja eigin sjálfsmynd á öðrum.

Það er nauðsynlegt að treysta á heilbrigða sjálfsmynd sem byggir á eigin verðleikum, ekki annarra.  Við höfum öll einhverja hæfileika, mismikla, en hæfileika sem við getum verið ánægð með og þakklát fyrir.  Við getum reynt að byggja upp jákvætt hugarfar, lært að vera til staðar fyrir aðra, sýnt umburðarlyndi í stað dómhörku, virt þarfir okkar og langanir og leitast við að sinna þeim eftir efnum og aðstæðum.

Við getum ástundað þakklæti.  Það er svo margt í lífinu sem við getum verið þakklát fyrir þrátt fyrir erfiðleika.

Heilbrigð sjálfsmynd minnkar depurð og kvíða.  Hún framkallar bjartsýni og styrk.  Okkur líður vel í eigin skinni.  Það er líðan sem er eftirsóknarverð.

Páll Þór Jónsson – Fjölskylduhús

Nýtt námskeið fyrir börn

stina-guðfinna1

Lykill að leikni

Sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga sem byggir á kenningum hugrænnar atferlismeðferðar og leiklistar.

Á námskeiðinu er unnið að styrkingu sjálfsmyndar á heildrænan hátt.

Sjálfsvirðing er efld með aukinni líkamsvitund og lögð áhersla á  tjáningu og félagslega færni sem og að þekkja tilfinningar sínar.

Markmið námskeiðsins er að einstaklingarnir fái trú á eigin getu og öðlist færni til þess að  standa með sjálfum sér í lífinu.

Lesa meira:

http://fjolskylduhus.is/dagskrain/18-11-13-lykill-ad-leikni/

Meðvirkninámskeið í nóvember

Námskeið sem vinnur með lausnir við meðvirkni verður haldið í nóvember næstkomandi.

Nánari dagssetning verður auglýst fljótlega.

Námskeiðið byggir á fræðslu um hvað er meðvirkni.

Við kennum einfaldar aðferðir til að byggja upp sjálfstraust og sjálfsvirðingu.

Horft er á stjórnsemi og höfnun og skoðað hvernig við bregðumst við.

Unnið er með mörk og leitast við að finna út hvað eðlileg mörk eru.

Um skakka ábyrgðarkennd

Við erum öll fædd með ábyrgðarkennd.  Í uppvextinum lærum við að þroska og þróa ábyrgð okkar.  Lítið barn lærir smám saman að takast á við ábyrgð í smáum skömmtum.   Það er hlutverk uppalenda að gæta þess að ábyrgðarkennd barna nái að þroskast eðlilega.   En við sem erum fullorðin erum sumhver sjálf með skakka ábyrgðarkennd.

Skakkri ábyrgð er hægt að skipta í tvennt.  Ýkt ábyrgð og lítil eða skert ábyrgð.

Ýkt ábyrgðarkennd lýsir sér til dæmis þannig að við upplifum að við berum ábyrgð á einstaklingum, atburðum eða aðstæðum sem við nánari skoðun stenst ekki.  Við sem höfum upplifað ýkta ábyrgðarkennd eigum ekki auðvelt með að koma auga á hana en í sumum tilfellum afneitum við því.  Auk þess viljum við réttlæta slíkar aðstæður.

Dæmi:  Það er eðlilegt að við gætum þess að vekja barnið okkar til að það mæti á réttum tíma í skólann.  Við gætum þess að barnið hafi með sér hollt nesti og að það klæðist í samræmi við veður.  Þetta er allt saman eðlilegt, ef barnið er til dæmis 8 ára.  En ef barnið okkar er orðið 27 ára þá er þetta orðið frekar einkennilegt.  En mörgum okkar gengur illa að gangast við því .  Við upplifum að viðkomandi fari sér að voða ef við hættum þessu!  Í þessu dæmi er ábyrgðarkenndin orðin að stjórnsemi og afskiptasemi.  Við berum ábyrgð á einstaklingi sem ætti að öllu jöfnu að vera búinn að læra að bera ábyrgð á sjálfum sér fyrir löngu.

Skert ábyrgðarkennd lýsir sér hinsvegar þannig að við teljum og réttlætum að einhver annar beri ábyrgð á okkur þrátt fyrir að vera fullorðnir einstaklingar.  Við getum upplifað þetta á ýmsa vegu.

Dæmi: Við upplifum að einstaklingur tali ógætilega til okkar.  Hér erum við ekki að tala um andlegt ofbeldi heldur hitt að við túlkum skilaboð eða samskipti sem niðurlægjandi.  Við notum þennan atburð til að réttlæta vanlíðan okkar í (mis)langan tíma á eftir.  Einhver særði okkur og okkur sárnar og gremst það.  Þannig erum við búin að ákveða að viðkomandi beri ábyrgð á líðan okkar, hann særði okkur og við höfum því lögmæta ástæðu til að líða illa.  Auðvitað getur framkoma annarra stundum verið meiðandi en það er okkar að bera ábyrgð á eigin líðan.

Heilbrigð ábyrgðarkennd miðast við að rækta hana þannig að við berum ábyrgð á sjálfum okkur.  Ef við eigum börn undir 18 ára aldri þá berum við vissulega ábyrgð á þeim, en gætum þess að þau axli eigin ábyrgð eftir því sem þau vaxa og dafna.   Ef við eigum í ástarsambandi, berum við sameiginlega ábyrgð með hinum aðilanum.  Við öxlum ábyrgð á vinnu okkar en gætum þess að taka ekki á okkur ábyrgð sem telst utan starfsrammans og svo hæfileg að við ráðum við hana á hverjum tíma.

Með því að vinna í ábyrgðarkennd og rækta hana, fáum við aukið sjálfstraust og sjálfsvirðingu og samskipti okkar við annað fólk verða mun auðveldari.

Páll Þór Jónsson

Foreldrahópar

Foreldrahópar undir handleiðslu ráðgjafa.

Foreldrahópar fyrir foreldra sem eiga barn í vímuefnavanda eða barn sem hefur átt við vímuefnavanda að stríða.

Foreldrahóparnir eru kynjaskiptir þar sem mjög algengt er að þegar barn er í vímuefnaneyslu reynir það á samskipti foreldra.

lesa meira:

http://fjolskylduhus.is/hopavinna/foreldrahopar/

Meðvirknihópar

Meðvirkni kemur fram á margvíslegan hátt en algengt er að meðvirkur einstaklingur upplifi sig fastan í einhverskonar óþægilegri tilveru og finnist hann ekki hafa mátt til að breyta neinu. Meðvirkur einstaklingur er einstaklingur sem er “háður” öðrum einstaklingi eða einstaklingum.

Lesa meira:

http://fjolskylduhus.is/hopavinna/medvirknihopar/

Hvað er 12 sporakerfi? – Fræðslufundur

Hvað er 12 sporakerfi?

Hér er leitast við að útskýra 12 spora kerfið og sporin tólf.

Eru trú og trúarbrögð forsenda fyrir 12 spora kerfinu?

Hvernig er hægt að nýta sér sporin til að byggja upp tilfinningalíf

og að takast á við þau verkefni sem framundan eru.

Fyrirlestur og umræður

STAÐUR:  GRENSÁSVEGUR 16a, JARÐHÆÐ

STUND:  ÞRIÐJUDAGUR 22. OKTÓBER N.K. KL. 20:00

AÐGANGUR:  KR. 2.000

ALLIR VELKOMNIR

Lykill að leikni: Námskeið fyrir börn og unglinga

800px-Face_paint_girls

Lykill að leikni

Sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga sem byggir á kenningum úr hugrænni atferlismeðferð og leiklist.

Á námskeiðinu er unnið að styrkingu sjálfsmyndar á heildrænan hátt. Þar sem sjálfsvirðing er efld með aukinni líkamsvitund og lögð áhersla á  tjáningu og félagslega færni sem og að þekkja tilfinningar sínar.

Markmiðið með námskeiðinu er að einstaklingarnir hafi trú á eigin getu og öðlist færni til þess að  standa með sér í lífinu.

lesa meira:

http://fjolskylduhus.is/namskeid/lykill-ad-leikni-fyrir-born-og-unglinga/

Hér eru góð ráð til foreldra

Ráð til foreldra sem nýtast til að efla sjálfsmynd barna.

Foreldrar þekkja börnin sín best og leggja sig alla fram við að gefa þeim gott veganesti út í lífið. Mikilvægt er að foreldrar hafi gott sjálfstraust og hlusti á innsæi sitt við uppeldi barna sinna. Foreldrar eru mikilvægustu fyrirmyndir barna sinna því börn læra af því sem fyrir þeim er haft og því geta foreldrar byggt upp sterka sjálfsmynd hjá börnum sínum með eigin athöfnum.

Börnin heyra og sjá hvernig foreldrar bregðast við daglegum athöfnum í lífinu:

Gættu orða þinna, börn eru næm á orð foreldra sinna. Mikilvægt er að hrósa börnum fyrir vel gerða vinnu en jafn mikilvægt er að hrósa fyrir átakið sem þau lögðu á sig til að framkvæma. T.d ef eitthvað mistekst hjá barninu þá er gott að hrósa því fyrir að reyna, það byggir upp trú hjá barninu um að æfingin skapi meistarann.

Börn læra það sem fyrir þeim er haft. Ef foreldri er neikvætt og niðurbrjótandi í eigin garð er það lærdómurinn sem barnið nemur. Foreldrar eru speglar barna sinna. Vertu jákvæð fyrirmynd.

Vertu með skýr en sanngjörn mörk, börn upplifa öryggi í mörkunum. Börn vita til hvers er ætlast af þeim þegar mörk eru skýr en óljós mörk valda þeim óöryggi og jafnvel kvíða. Börn sem búa við skýr mörk eru líkleg til þess að tileinka sér góðan sjálfsaga og verða sterkir einstaklingar.

Gefðu barninu þínu tíma, talaðu við það og hlustaðu á það. Börn vilja fá að hafa skoðun og vilja að hlustað sé á þau. Það að hlusta á barn þitt þýðir ekki að þú segir endilega já en það eflir barnið í að nefna langanir sýnar og læra að taka við svarinu hvort sem svarið er nei eða já. Útskýrðu fyrir barninu þínu af hverju svarið er nei eða já. Börn læra líka að bera virðingu fyrir öðrum þegar borin er virðing fyrir þeim. Að hlusta á aðra manneskju er að sýna virðingu.

Sýndu barninu tilfinningar þínar og samþykktu tilfinningar þess. Tilfinningalegt uppeldi er mjög mikilvægt. Það styrkir sjálfsmynd að barn þekki tilfinningar sínar og fái viðurkenningu fyrir því að það sé eðlilegt að upplifa bæði jákvæðar og neikvæðar tilfinningar.

Verðu tíma með barninu þínu. Börnum finnst gott að vera með foreldrum sínum og það á sér stað mikilvæg tengslamyndun í samverustundunum sem börn og foreldrar búa að alla tíð. Hafðu barnið með í athöfnum heimilisins, t.d. taka þátt í að ákveða hvað er í matinn. Gerið matartíma að samverustund þar sem allir fá innsýn inn í dag hvers annars.

Kristín Snorradóttir