Vinnum á kvíðanum

Kvíði er óþægileg tilfinning sem við viljum gjarnan vera án.  Samt er heilbrigður kvíði oft þarfur og er til merkis um verkefni  sem þarf að vanda og hvetur okkur til að gæta að okkur og leita upplýsinga og aðstoðar ef með þarf.  Góður undirbúningur og heilbrigð skynsemi hjálpar mörgum að losa sig við kvíða án vandkvæða.

En í sumum tilfellum verður kvíði óraunhæfur og getur oft orðið að viðvarandi ástandi.  Þá er nauðsynlegt að skoða hvað veldur og athuga hvernig best er að vinna með kvíðann.

Í grunninn er kvíði tengdur einhverju sem við eigum ógert.  Vinnukvíða þekkja margir og upplifa þá að þeim finnist verkefni vera óyfirstíganlegt og eiga í erfiðleikum með að skoða raunhæft hve erfitt verkefnið sé.

Viðvarandi kvíði er oft nátengdur trausti.  Stundum treystum við ekki sjálfum okkur til að framkvæma og seljum okkur þá hugmynd að okkur skorti þrótt eða getu.  Í öðrum tilfellum byggjum við upp kvíða þegar við teljum okkur ekki geta treyst á annað fólk.

Kvíði er einnig tengdur ábyrgðarkennd.  Ef við göngumst í ábyrgð fyrir of  stórum verkefnum eða þá að við dettum í þá gryfju að ábyrgjast aðra einstaklinga um of, þá gerir kvíðinn vart við sig.  Þetta á einnig við ef við tökum ekki ábyrgð á okkur sjálfum og gætum þess ekki  að sinna þörfum okkar.  Þá verður kvíðinn oft viðvarandi.

En sumar myndir kvíða eru mjög faldar og erfitt að koma auga á tengingar hans við aðrar tilfinningar.  Sjálfsgagnrýni er oft upphafin sem dyggð.  Svo er ekki þvi hjá meðvirkum einstaklingum verður sjálfsgagnrýni oftar en ekki að miskunnarlausu sjálfsniðurrifi sem skemmir og meiðir sjálfsmyndina.  Öfgafyllsta mynd sjálfsniðurrifs er sjálfshöfnun eða höfnun á eigin líkama.  Allar þessar myndir geta framkallað stanslausan kvíða sem skerðir lífsgæði og sjálfsvitund okkar.

Kvíðinn sjálfur getur síðan hindrað okkur í að vinna okkur frá honum.  Við óttumst að takast á við hann og hræðumst afleiðingarnar.  Það er dæmi um ranghugmyndir sem oft gera vart við sig.  En því fylgir mikill léttir og frelsun að vinna sig frá þessu ástandi.  Oftast er nauðsynlegt að leita sér einhverskonar hjálpar hjá þeim sem skilja og vita hvernig hægt er að vinna á kvíðanum svo að lífið komist í betra horf.

Það er einsog að stíga út í yndislegan vordag að losna frá langvarandi kvíða og það hefur mikil áhrif á þann sem það gerir en ekki síður á vini og vandamenn sem oftar en ekki sjá árangurinn í skilvirkari, betri og skemmtilegri samskiptum við þann sem átti við langvarandi kvíða að stríða.

Páll Þór Jónsson – Fjölskylduhús

Að þóknast öðrum

Þóknun er áhugavert og um margt flókið hlutverk sem margir gangast inn í umhugsunarlaust.  Að þóknast öðrum þýðir að við leggjum eign þarfir til hliðar og leggjum allt í að gera aðra glaða, jafnvel þó það skapi okkur sjálfum vaníðan.  Í mörgum tilfellum getur það verið í fínu lagi en ef við leggjum það í vana okkar að fórna eigin þörfum til að þóknast öðrum, erum við að meiða sjálfsmyndina okkar og sjálfsvirðingin skekkist.  Það er sterk tenging á milli andlegrar vanlíðunar eins og depurðar og kvíða við þóknun.

En er ekki sjálfsagt að hjálpa öðrum?  Er það þókun að vera hjálpsamur og taka tillit til annars fólks?  Svarið er nei.  Þóknun er ekki það sama og að vera kærleiksríkur við annað fólk og að vera hjálpsamur og umburðarlyndur einstaklingur.  Slíkir eiginleikar eru kostir sem vert er að rækta og efla og gefa okkur vellíðan auk þess sem samskipti okkar við annað fólk verða betri.

En á þóknun sér engar málsbætur?   Jú, stundum koma upp aðstæður þar sem við þurfum að grípa inn í, alvarleg veikindi í fjölskyldunni til dæmis, og við leggjum þarfir okkar til hliðar, tímabundið til að sinna ástvini.  En þóknun má ekki verða viðvarandi ástand því þá erum við farin að vanrækja okkur.

Það getur verið snúið að koma auga á þóknun í eigin fari.  Hún er mörgum okkar svo eðlislæg því hún ræktaðist inn í okkur í barnæsku.  Okkur var mörgum kennt að það væri göfugt að gleðja aðra.  Sem það er en að fórna eign þörfum á sama tima á í mörgum tilfellum að vera hreinn óþarfi.  Þóknun er líka snúin því við fáum oftar en ekki mikið hól fyrir og það þykir okkur gott.  En ef þóknunin er orðin langvinn þá endist sú vellíðan skammt því innra með okkur finnum við tómleika, skömm og ýmsar aðrar óþægilegar tilfinningar.

Mörg okkar nota þóknun til að tryggja að öðru fólki líki við okkur.  Og við óttumst afleiðingarnar ef við hættum að þóknast.  Hvað mun annað fólk segja um okkur?  En þá erum við farin að stjórnast um of af áliti annarra og sjálfsálit okkar er sett til hliðar.

Það fylgir því mikill árangur og vellíðan að vinna með og ná tökum á langvinni þóknun.  Við áttum okkur smám saman á mörkum okkar og annarra og við áttum okkur á hvar ábyrgð okkar á að liggja.

Páll Þór Jónsson – Fjölskylduhús

Umsagnir um meðvirkninámskeiðið.

Hérna eru nokkrar umsagnir frá þáttakendum í meðvirkninámskeiðinu Lykill að góðu lífi sem við héldum aftur í gærkvöldi.

Við erum afar þakklát fyrir móttökurnar og skemmtileg kynni við þáttakendur.  Takk fyrir okkur!

Umsagnir:

Naut kvöldsins, afar fræðandi og leiðbeinendur hlýjir og notalegir.

Góð dæmi úr eigin lífi og hvatning fyrir þátttakendur að tala og spyrja.

Klárt mál að ég fer heim og vinn með allar þær góðu upplýsingar sem ég fékk.

Kærar þakkir fyrir mig

– – –

Áhugavert og lærdómsríkt námskeið.

Góðir og áhugasamir fyrirlesarar.

Takk fyrir mig!

– – –

Þetta námskeið kveikir svo sannarlega á ýmsu hjá manni sem mun leiða til sjálfsskoðunar.

Þið tengið vel saman þá áherslupunkta sem farið er í og dæmin sem þið takið eru sannarlega mikilvæg en jafnframt góð og skemmtileg og maður getur sett sig í þau spor.

Takk fyrir mig.

Áhrif hugsana á eigin líðan

 Fæst okkar eru meðvituð um eigin hugsanir og áhrif þeirra á okkur en auðveldlega má auka þessa meðvitund og fara að hlusta á hugsanir sínar sem er fyrsta skrefið í þá átt að velja sér hugsanir.

Staldraðu við og hlustaðu á eigin hugsanir:

Nú hugsa sumir, það er ekki hægt! Aðrir hugsa með sér þetta hljómar spennandi.

Það er mismunandi hvaða hugsanir koma upp hjá hverjum og einum þegar þeir lesa þetta og þær hugsanir sem koma upp eru ósjálfráðar hugsanir. Nú þegar þú veist það muntu geta gripið þessar hugsanir og staldrað við.

Prófaðu svo að hugsa um eitthvað verulega sorglegt eða erfitt tímabil í lífi þínu. Þegar þú gerir það finnurðu hvaða áhrif það hefur á líðan þína, tilfinningar fara af stað. Ef þú hugsar um eitthvað sem virkilega reyndi á þig gætirðu jafnvel farið að gráta.

Prófaðu núna að hugsa um eitthvað sem er verulega jákvætt og skemmtilegt, eitthvað spennandi. Finndu hvernig yfir þig kemur vellíðan og góðar tilfinningar magnast.

Þessi litla tilraun sýnir okkur fram á það að hugsanir hafa áhrif á tilfinningar og þar með á líðan okkar.

Í hugrænni atferlismeðferð er unnið með hugsanir út frá því að hugsanir hafi áhrif á tilfinningar (líðan) sem hefur svo áhrif á hegðun.

Hegðun okkar einkennist af líðan okkar.

Þegar okkur líður vel erum við framtaksamari, jákvæðari og orkumeiri. Við hugsum jákvætt og horfum björtum augum fram á veginn. Við leysum þau verkefni sem fyrir okkur liggja og eyðum ekki orku í óþarfa áhyggjur. Sjálfsmyndin styrkist.

Aftur á móti þegar okkur líður illa þá erum við orkulítil, afköstum minna og okkur finnst framtíðin frekar dökk. Við sjáum frekar það neikvæða og vandamálin verða stærri og áhyggjurnar meiri. Sjálfsmyndin veikist.

Æfðu þig að hugsa jákvætt því æfingin skapar meistarann.

Kristín Snorradóttir – Fjölskylduhús

Fróðleikur um skömm

Skömm er tilfinning sem við fæðumst með.  Hún hjálpar okkur að leitast við að gera betur og getur hvatt okkur til betri verka.  Okkur þykir skammartilfinning óþægileg og hún á að vera það.

Mörg okkar eiga í vanda með að skilja á milli skammar og sektarkenndar og oft eru skilin óskýr.  En sektarkenndin er fremur verkefnatengd. Við  gerum á hlut einhvers og hún sendir okkur skilaboð um að bæta ráð okkar.

Skömmin er mun leyndari enda er það eitt  af höfuðeinkennum hennar að vilja vera leyndarmál.  Við viljum ekki að annað fólk viti hvernig við erum!

Skömmin er líka nátengd annarri tilfinningu sem snýr að  áliti annarra á okkur.  Við viljum að öðru fólki líki við okkur. Það er okkur eðlislægt en verði álit annarra á okkur að drifkraftinum í lífinu, erum við komin í veruleg vandræði.  Þá hættum við að stjórnast af því hvað okkur er fyrir bestu en förum að láta ímyndað álit annarra stjórna ferðinni.

Skömm getur snúið bæði inn á við og út á við.  Við getum í sumum tilfellum fundið fyrir skömm gagnvart okkar nánustu. Unglingar skammast sín stundum fyrir foreldrana til dæmis.  Enn og aftur er álit annarra á okkur, drifkrafturinn.

En við getum líka skammast okkar fyrir eigin vangetu, efnahagslega stöðu, litla menntun, útlit eða hvaðeina það sem hægt er að tína til.  Slík skömm er afar meiðandi í okkar eigin garð.  Hún framkallar brotið sjálfsmat, ótta, vanlíðan, sjálfsvorkunn, depurð og fleiri neikvæðar tilfinningar.  Þegar skömmin fær að næra okkur á þann veg skapar hún mikið sjálfsniðurrif , efa og kvíða.  Óttinn við höfnun getur orðið sjúklegur þegar skömm, leyndarmál og óttinn við álit annarra taka höndum saman.

Það er mjög mikilvægt að vinna með skömm.  Það getur verið mjög snúið og best er að vinna með hana með einhverjum sem þekkir eyðileggingarmátt hennar.  Að losna frá skömm er einstaklega frelsandi.  Það er eins og að losna við risastóra keðju sem hefur haldið okkur föstum.

Að losna frá skömm framkallar bjartsýni og von.  Við fyllumst orku og framkvæmdagleði  og vandamálin verða frekar að verkefnum sem hægt er að leysa. Þá  finnum við okkur betur í samfélagi við annað fólk, finnum að við erum jafningjar sem höfum ýmislegt fram að færa.

Páll Þór Jónsson – Fjölskylduhús

Sektarkennd

Sektarkennd er innbyggð í okkur.  Hún er nátengd siðferðiskenndinni okkar og þar með réttlætisskenndinni.   Sektarkennd hjálpar okkur að leiðrétta gjörðir okkar.  Hún minnir okkur á ef við höfum gert á hlut annarra.  Hún hvetur okkur til að leiðrétta misgjörðir okkar.  Sektarkenndin er því nauðsynleg öllum þeim sem vilja lifa heilbrigðu lífi og í góðum tengslum við vini og ættingja.

En sektarkenndin getur verið löskuð.  Þeir sem eru til dæmis siðblindir upplifa síður eða alls ekki sektarkennd.  Þeir geta ekki sett sig í spor annars fólks og sjá þvi ekki hvað eða hvort þeir hafi gert eitthvað rangt.  Blessunarlega eru fæst okkar siðblind en slæm siðferðisvitund getur þó orðið vandamál hjá þeim sem ánetjast vímuefnum.

Þegar sektarkennd laskast, til dæmis í  æsku, getur hún stundum orðið sjálfvirk.  Þannig getur ákveðið viðmót eða áherslur eða til dæmis tónn í tali fólks framkallað sjálfvirka sektarkennd.  Þá upplifum við að við höfum gert eitthvað rangt án þess að nokkur ástæða sé til þess.

Margir rugla saman sektarkennd og skömm.  Yfirleitt er sektarkennd tengd atburðum eins og ákvörðunum, samtölum, frestun eða misminni.  Með öðrum orðum þá höfum við brugðist einhverjum þannig að við upplifum sektarkennd.  En sektarkenndin getur umbreyst í skömm á þann veg að við viljum ekki segja nokkrum manni frá sök okkar.  Við skömmumst okkar fyrir gerðir okkar.  Það er mjög meiðandi að lifa lífi þar sem sektarkennd er ráðandi.  Það er ekki aðeins meiðandi fyrir þann sem upplifir hana því slæm líðan okkar hefur áhrif á umhverfið.

Ef við upplifum sektarkennd er það versta sem við gerum, að rífa okkur niður fyrir gerðir okkar.  Þá er hætt við að við búum okkur til slæma og oft varanlega vanlíðan.  Við erum mannleg og þess vegna gerum við stundum mistök.  Miklu betra er að gangast við þeim og leiðrétta þau, biðjast afsökunar eða bæta fyrir brot okkar.

Eðlileg sektarkennd er hinsvegar gott tæki sem við getum nýtt okkur.  Best er að vinna með þá hegðun okkar sem kallar fram sektarkennd.   Við skoðum hvernig hægt er að laga viðbrögð okkar og skoðum hvort sektarkenndin sé byggð á raunveruleikanum.  Við leitumst við að skilja á milli sektarkenndar og skammar því það hjálpar okkur að þroskast tilfinningalega.

Það er skemmtilegt að vinna tilfinningavinnu því árangurinn skapar vellíðan og sjálfsvirðingu.

Páll Þór Jónsson –  Fjölskylduhús