Andlegt ofbeldi

Ef þú ert slegin eða þér er hrint er augljóst að verið er að beita þig líkamlegu ofbeldi. Það er hins vegar ekki eins augsýnilegt ef þú ert beitt andlegu ofbeldi.

Andlegt ofbeldi er gjarnan mjög lúmskt eða dulið og því erfitt að koma auga á það. Skaðinn sem af því hlýst er þó ekki minni en sá sem hlýst af líkamlegu ofbeldi og sárin undan andlegu ofbeldi gróa ekki eins auðveldlega og hin líkamlegu sár.

Andlegt ofbeldi er framkoma, með eða án orða, sem vísvitandi eða óviljandi, veldur andlegum sársauka eða vanlíðan eða er skynjuð þannig af þeim sem fyrir henni verður.

Ef þú finnur til undan framkomu einhvers hefur þú skynjað þá framkomu sem andlegt ofbeldi. Tilfinningar þínar og skynjun virka þá sem viðvörunarkerfi sem lætur þig vita ef verið er að brjóta á þér eða sýna þér lítilsvirðingu. Ef þú velur að gera athugasemd við meiðandi framkomu og færð þau svör að tilfinningar þínar séu óviðeigandi eða skynjun þín brengluð er verið að gera lítið úr þér og það er andlegt ofbeldi.

Ein afleiðing langvarandi andlegs ofbeldis er sú að viðvörunarkerfið bilar og við verðum annað hvort ofurviðkvæm eða ónæm fyrir framkomu annarra.

Oftast virkar viðvörunarkerfi okkar þó ágætlega og okkur er óhætt að taka mark á því.