Að vera mamma

Við viljum allt það besta fyrir börnin okkar. Við viljum að þau alist upp í öryggi og hlýju og vaxi úr grasi lífsglöð og sátt. Sumum okkar hættir til að gera of miklar kröfur í þessum efnum og megum þá helst ekki til þess vita að börnin okkar finni til, andlega eða líkamlega. Við viljum alltaf hafa þau glöð og hamingjusöm og þeim á aldrei að leiðast.

Þetta síðastnefnda var mér hjartans mál þegar sonur minn var yngri og ég hafði oft samviskubit yfir því að standa mig ekki nógu vel í því að finna upp á einhverju skemmtilegu. Ég ræddi þetta við vinkonu mína og hún sagði mér frá atviki sem varpaði fyrir mig nýju ljósi á „vandamálið.“

Það var á sunnudegi að vori og hún hafði skipulagt skemmtiferð niður að tjörn til að gefa öndunum. Þegar hún sagði syni sínum þessi áform svaraði hann: „Far þú bara niður að tjörn mamma mín, ég ætla að vera hér heima.“

Kannski eru hugmyndir okkar um „eitthvað skemmtilegt“ ekki endilega þær sömu og barnanna okkar og kannski þarf ekki alltaf að gera eitthvað skemmtilegt. Stundum er gott að gera ekki neitt. Þá lærir maður að hafa ofan af fyrir sjálfum sér og láta sér líða vel í eigin félagsskap.