Unglingar og vímuefni

Hvað getur bent til þess að barn sé byrjað að neyta vímuefna?

Það er eðlilegt að unglingur fari í smá uppreisn, þar sem partur af þroska unglingsáranna er að berjast fyrir sjálfstæði og slíta sig lausan frá foreldrum. Þegar þessi uppreisn gengur út í öfgar og unglingurinn sýnir ýktar breytingar þá er mikilvægt að foreldrar fylgist vel með þar sem það getur verið vísbending um vímuefnaneyslu.
Nokkur dæmi:

 • Ýktar breytingar á hegðun
 • Skapgerðarbreytingar
 • Skyndilegur mótþrói við aga á heimili eða í skóla, hættir að virða útivistarreglur
 • Dræm skólasókn og versnandi námsárangur eða ástundun í vinnu
 • Minni samskipti og/eða einangrun frá fjölskyldu og gömlum vinum
 • Nýr vinahópur sem kemur ekki með heim
 • Depurð eða óútskýranleg reiði
 • Almennt áhugaleysi og doði
 • Breyting á svefn- og matarvenjum
 • Mikil peningaþörf eða hnupl
 • Ósannsögli eða aukin leynd yfir athöfnum og eigum

Ef foreldra grunar að barn sé að nota vímuefni eða að feta braut annarrar áhættuhegðunar er vænlegast að setjast niður með viðkomandi og ræða við hann í kærleika en setja jafnframt skýr mörk í afstöðu sinni gagnvart vímuefnaneyslu. Jafnframt er gott fyrir foreldra að leita sér aðstoðar til þess að takast á við vandann.