Raskanir

ADHD- Athyglisbrestur með ofvirkni
Taugalífeðlisfræðileg truflun sem skiptist í þrjá þætti, athyglisbrest, ofvirkni og hvatvísi. Í stuttu máli lýsir röskunin sér á þann hátt að einstaklingurinn heldur illa einbeitningu, unir við verkefni í stutta stund, þolir illa áreiti frá umhverfinu, er gjarnan á iði og hefur mikla hreyfiþörf, truflar aðra með frammígripi og framkvæmir án þess að hugsa. Fylgikvillar röskunarinnar eru gjarnan námsörðuleikar, hegðunarvandkvæði, fíkniefnaneysla og afbrot.

Andstöðu-mótþróaþrjóskuröskun
Röskun sem þróast oft vegna ofvirkniröskunar á háu stigi og/eða vegna slakra uppeldiskilyrða. Einstaklingurinn missir stjórn á skapi sínu, neitar að fara að reglum, lendir oft í deilum við fullorðna, truflar aðra, ber ekki ábyrgð á eigin gjörðum og getur sýnt ofbeldisfulla hegðun. Fylgikvillar röskunarinnar eru námsörðugleikar, ofvirkni og áhættuhegðun sem hætta er á að þróist yfir í andfélagslegan persónuleika á fullorðinsárum.

Aspberger heilkenni
Taugalífeðlisfræðileg truflun sem tengist einhverfurófi. Einstaklingar með heilkennið eiga í erfiðleikum með að tengjast öðru fólki og því skortir mikið upp á félagshæfni þeirra. Þeir eru gjarnan með mjög sérkennileg áhugasvið og eru þá helteknir af áhuga, sýna þráhyggjukennda hegðun og þola illa breytingar. Hegðunarvandamál stafa oft af því að einstaklingurinn hefur ekki hæfnina til þess að lesa í aðstæður og annað fólk.

Áráttu- og þráhyggjuröskun
Röskunin einkennist af heitinu. Einstaklingur er með stöðugt endurteknar hugsanir og hvatir sem eru honum kvíðavaldandi. Önnur einkenni geta verið síendurteknar líkamlegar hreyfingar eða gjörðir.  Fylgikvillar eru þunglyndi og kvíði.

Hegðunarröskun
Hegðunarröskun þróast út frá öðrum vægari röskunum t.d.  ADHD-mótþróaþrjóskuröskun.

Hegðunarröskun lýsir sér í árásargirni gagnvart dýrum og mönnum. Einstaklingurinn er ofbeldisfullur, skemmir eignir og brýtur þær reglur sem honum þóknast. Fylgikvillar eru námsörðugleikar, ofvirkni, þunglyndi og vímuefnaneysla ásamt afbrotahegðun.

Lestrarröskun
Taugalífeðlisfræðilegir veikleikar á sviði máltjáningar og málþroska. Einstaklingurinn á erfitt með að læra stærðfræði og skrift, hefur lítið þol fyrir mótlæti og er gjarnan með brotna sjálfsmynd.

Tourette heilkenni
Lýsir sér með endurteknum vöðva- og taugakippum ( kækjum) og einstaklingurinn gefur frá sér hin ýmsu hljóð, oft mjög óviðeigandi hljóð. Fylgikvillar geta verið ADHD, árátta, þráhyggja, þunglyndi, kvíði og óviðeigandi félagsleg hegðun.