Um fyrirgefningu

Flestar kenningar um það hvernig bæta megi líf sitt leggja áherslu á mikilvægi þess að geta fyrirgefið enda sé reiði og gremja heilsupillandi fyrir líkama og sál.

Fyrirgefning líkt og flest annað er einfalt mál þegar maður er barn. Þá er vandalítið að biðjast fyrirgefningar og fyrirgefa. Það eina sem getur flækt málið er að komst að samkomulagi um hver hafi byrjað og hver eigi að biðjast fyrirgefningar fyrst. Þá skynjar maður afsökunarbeiðni sem hálfgerðan ósigur og viðurkenningu á því að hafa verið aðalsökudólgurinn. Það mál leysist þegar lærist að biðjast afsökunar á eigin hegðun og sínum þætti í átökum án þess að taka á sig alla ábyrgðina á misklíðinni.

Á fullorðinsárum fyrirgefum við áreynslulítið börnum okkar óþekkt þeirra, ekki síst þegar þau iðrast og lofa bót og betrun og við fyrirgefum maka okkar hverskyns yfirsjónir. Við viljum gjarnan að okkur sé fyrirgefið þegar okkur verður á í messunni og við viljum yfirleitt frekar lifa í sátt og samlyndi en ófriði.

Með því að fyrirgefa segjum við að við munum ekki erfa það sem var gert á hlut okkar, að við séum tilbúin til að breiða yfir atvikið og helst ekki tala um það meir. Með fyrirgefningu viljum við og treysta því að atvikið endurtaki sig ekki og við viljum trúa því að sýnd iðrun sé sönn eða að það hafi ekki verið með vilja gert að særa eða meiða.

Áleitnar spurningar og vangaveltur um fyrirgefningu vakna þegar erfitt verður að fyrirgefa eða biðjast fyrirgefningar. Er hægt að fyrirgefa allt? Ætti maður að fyrirgefa allt? Hvað felst í því að fyrirgefa? Hvers vegna er stundum svo erfitt að fyrirgefa?

Það getur verið erfitt að fyrirgefa ef brotið er ekki viðurkennt, fyrirgefningarbeiðni er engin né heldur bætur fyrir skaðann. Ekki kærir maður sig heldur um að fyrirgefa ef manni þykir að með því leggi maður blessun sína yfir hegðun sem særði og geri þar með lítið úr þeim sársauka sem hún olli. Slíkt gæti þá jafnvel orðið þá til þess að sagan endurtæki sig. Loks getur manni þótt að með fyrirgefningu sé veitt einhverskonar syndaaflausn sem ekki sé í mannlegu valdi að veita.

Stundum er ekki skynsamlegt að fyrirgefa í þeim skilningi að breiða yfir, gleyma og leyfa öllu að verða eins og áður. Ef sá sem hefur brotið hefur framið er samviskulaus eða ofbeldisfullur og er ekki líklegur til að breytast, ætti ekki að samþykkja óbreytt ástand. Þá ætti maður forða sér og sínum en láta fyrirgefningu liggja milli hluta. Að minnsta kosti um sinn. Ekki ætti maður heldur að hafa samviskubit yfir því að geta ekki fyrirgefið eða finnast maður minni manneskja fyrir vikið. Í stað þess að reyna að fyrirgefa ætti maður heldur að leitast við að losna við gremju og græða sárin.

Ef maður setur sér það að markmiði að láta liðin atvik ekki valda frekari vanlíðan og erfa ekki það sem gert var á hlut manns, felur það ekki í sér samþykki verknaðarins né að gert sé lítið úr afleiðingum hans. Það þýðir ekki heldur að maður kjósi að viðhalda samskiptum né falla frá ósk um bætur.

Ef það er ekki í mannlegu valdi að veita syndaaflausn ætti maður að geta fallist á að það sé ekki heldur í manna valdi að útdeila dómum og refsingu. Um leið og látið er af kröfu um að fyrirgefa ætti maður að geta látið af þörf fyrir að refsa eða hefna. Ef fyrirgefning er einhversskonar syndaaflausn sem einungis er í valdi Guðs að veita, hlýtur dómur og refsing einnig að vera í valdi Guðs.

Þegar maður losar sig undan kröfunni um að fyrirgefa og lönguninni til að refsa, afsalar maður sér ábyrgð á því að fólk hljóti þau málagjöld sem maður helst vildi. Þá þarf maður hvorki að halda lífi í minningum um hið liðna né eyða tíma né orku í að rifja upp það sem gerðist eða lifa upp aftur sársauka og reiði. Þá þarf maður ekki að láta tilvist annarra eða misgjörðir þeirra spilla lífsgleði sinni.

Samt er það svo að óvelkomnar hugsanir hafa tilhneigingu til að elta mann uppi og liðin atvik leita á hugann. Kannski vegna þess að manni finnst eitthvað ógert eða ósagt eða maður hefur þörf fyrir frekari skilning á því sem gerðist. Meðan einhver von er um frekara uppgjör eða málalok sem maður getur sætt sig við getur verið erfitt að sleppa tökunum. Hvort sem von um slík málalok er raunhæf eða ekki er gagnslítið að viðhalda gremju meðan þeirra er beðið enda gæti sú bið orðið æði löng.

Ef leiðinda hugsanir og gremja truflar líf manns og lífsgleði er hér aðferð sem ég lærði fyrir mörgum árum og hefur reynst mér vel til að láta af óvelkomnum hugsunum. Hún felst í því að skrifa á miða það sem veldur hugarangri, nöfn fólks sem maður er ósáttur við og eins áhyggjuefni sem maður er vanmáttugur gagnvart. Hvert atriði fer á einn miða. Miðana brýtur maður saman og setur í krukku merkta Guði og treystir því að Guð muni sjá um þessi mál meðan maður sinnir öðru.

Þegar maður erfir ekki lengur neitt við neinn, ber ekki kala til nokkurs manns og hið liðna fær ekki hróflað sálarró manns, má segja að maður hafi fyrirgefið. Ef maður kýs að kalla það einhverjum öðrum nöfnum eða bara alls ekki neitt þá er það í góðu lagi. Það sem skiptir máli er að maður hefur öðlast frelsi frá reiði og beiskju og getur lifað í sátt við sjálfan sig, Guð og menn.

Píslarvottar

Píslarvottar eru þeir sem “fórna sér” fyrir aðra en fá aldrei neitt í staðinn. Píslarvottar eru alltaf boðnir og búnir til að hjálpa en kvarta svo yfir því hvað fólk ætlast til mikils af þeim. Píslarvottar biðja aldrei nokkurn mann um neitt en fara í fýlu þegar þeir fá ekki það sem þeir vonuðust eftir.

Píslarvottar líta út fyrir að vera mjög göfugir og góðir en eru í raun frekir og stjórnsamir. Píslarvottar þykjast ekki hafa neinar þarfir en í raun eru það þeirra þarfir sem allt snýst um.

Píslarvottar láta sem þeim sé annt um alla og þjóni öllum en í eru í raun bitrir og sárir útí allt og alla. Píslarvottar láta líta út eins og þeir vinni góðverk sín í kyrrþey en segja öllum sem heyra vilja hvað þeir hafi lagt mikið á sig.

Píslarvottar vilja trúa því að góðverk þeirra séu sprottin af kærleika en í raun eru þeir reknir áfram af ótta og vanmætti. Píslarvottar þykjast ekki gera kröfur til nokkurs manns en segja svo frá því að fólki hafi “aldrei dottið í huga að bjóðast til að gera nokkurn skapaðan hlut fyrir þá”. Píslarvottar halda bókhald yfir greiðasemi annarra. Þeir fylgjast grannt með hvernig fólk stendur sig í hugulsemi og góðmennsku og þeir skrá hjá sér misgjörðir þess. Píslarvottar tjá ekki tilfinningar sínar aðrar en vandlætingu og sárindi og þeir gefa ekki upp langanir sínar eða þarfir. Píslarvottar ætlast til að fólk lesi hugsanir og þeir bíða eftir að einhver skynji þarfir þeirra og komi til móts við þær. Píslarvottar trúa því að “maður eigi ekki að þurfa að biðja um hlutina” og verða sífellt fyrir vonbrigðum þegar vinir og vandamenn bregðast í hugsanalestrinum.

Ef þú ert í nánum samskiptum við píslarvott átti ekki margra kosta völ. Þú getur valið milli stöðugrar sektarkennar eða undirgefni eða þú getur neitað að taka þátt í leiknum og sett þig meðvitað í hóp hinna tillitslausu…. án sektarkenndar.

Virðing og vinsældir

Það er ekki eigingirni, sjálfselska eða frekja að neita að taka þátt í einhverju sem þú kærir þig ekki um. Það gerir þú af virðingu fyrir sjálfri þér.

Þegar þú neitar að ljúga fyrir fólk, hylma yfir með framhjáhaldi, gefa peninga til málefnis sem þú styður ekki, kaupa eitthvað sem þú vilt ekki eða hlæja að bröndurum sem þér þykja ekki fyndnir, eykur það ef til vill ekki vinsældir þínar. Þú gætir jafnvel orðið fyrir ásökunum um að vera félagsskítur eða svikari.

Vanþóknun annara er ekki sérlega notaleg tilfinning og það þarf kjark til að standa með sjálfum sér, sérstaklega ef maður stendur einn. Þegar þú stendur með þér verður þú ánægð með þig og sjálfsvirðing þín styrkist.

Þegar þú svíkur sjálfa þig til að þóknast öðrum dregur úr sjálfsvirðingu þinni og þú verður óánægð með þig. Valið stendur milli þess að beygja sig undir vilja annara eða vera tímabundið leiðinleg. Hvort viltu?

Ásta Ólafsdóttir sálfræðingur

Er fíll í stofunni hjá þér?

Í sumum fjölskyldum verða til fílar sem koma sér haganlega fyrir í stofunni. Fílar eru einstaklingar sem ná að að deila og drottna innan fjölskyldu og aðrir fjölskyldumeðlimir verða eins og tól og tæki við að þjónusta fílinn og sjá til þess að hann skorti ekkert.

Sumir halda að  fílar séu fyrst og fremst alkóhólistar eða fiklar.  En svo er alls ekki.  Fíllinn getur verið hvaða fjölskyldumeðlimur sem er.  Hann getur verið faðirinn, móðirin eða unglingurinn.  Hann getur verið þunglyndis- eða kvíðasjúklingur eða jafnvel þóst vera með slík einkenni, til þess eins að ná sínu fram.

Þegar  fíll kemur sér fyrir í fjölskyldunni nær hann þeirri stöðu að aðrir eru boðnir og búnir að þjóna þörfum og löngunum hans og gleyma að sjálfssögðu sjálfum sér.

Sumir  fílar stjórna með reiði en alls ekki allir. Aðrir stjórna með því að koma inn sektarkennd hjá heimilisfólkinu og enn aðrir gera út á samúð  fjölskyldumeðlima.  Fíllinn getur sýnt miklar tilfinningar til að ná sínu fram.  Hann getur látist vera þunglyndur aðeins til þess að kalla eftir samúð sem venjulegu fólki er í blóð borin.  Fíllinn hefur einstaka hæfileika í að spila með heimilisfólkið.

Fílar nota rafmagnaða þögn til að stjórna öðrum.  Þeir hunsa fólk og eiga mjög auðvelt með að setja einstaka fjölskyldumeðlimi í frost.  Einu gildir þó aðrir reyni slíkt hið sama, það virkar ekki á fílinn því honum er í raun sama um annað fólk.  Þetta vill hann seint viðurkenna og allra síst fyrir sjálfum sér.  Aðrir fjölskyldumeðlimir eru aðeins verkfæri sem fíllinn notar til að fá þá þjónustu sem hann telur sig  eiga heimtingu á.  Þarfir annarra finnast honum lítils virði.  Þeir sýna aðeins þeim vinsemd sem þeir ætla að nota.

Fílar telja sig vita allt betur en aðrir jafnvel þó þeir séu áratugum yngri en aðrir fjölskyldumeðlimir.  Þeim finnst reynsla annarra lítils virði og lítt áhugaverð.  Þeirra eigin reynsla er það sem gildir.  Það getur verið erfitt að eiga við fílinn.  Ef hann er fíkill er nánast ómögulegt að eiga við hann nema hann hætti neyslu og fari í meðferð.  Í sumum tilfellum dugir það ekki til en oftast virkar það vel.  Fíll sem gerir út á aðra þætti eins og depruð eða kvíða getur verið mjög slægur við að verja stöðu sína því það er eitt sterkasta einkenni  fílanna að þeir vilja einfaldlega vera fílar áfram!  Og oft eiga aðrir fjölskyldumeðlimir erfitt með að viðurkenna vandann.

Við mælum með að aðstandendur leiti sér hjálpar og styrks til að takast á við verkefnið.

Páll Þór Jónsson  –  Fjölskylduhús

Þetta er mitt líf – námskeiðið hefst 27. janúar

Þetta er mitt líf.
Uppbyggjandi og áhugavert námskeið .
Á námskeiðinu verður fjallað um forsendur lífshamingju, eflingu sjálfsmyndar, undirstöðuatriði hugrænnar atferlismeðferðar og viðtalstækni. Þá verða kenndar leiðir til að losna undan stjórn annarra. og hvernig veita megi stuðning án stjórnunar og íhlutunar. Einnig verður m.a. fjallað um andlegt ofbeldi í daglegu lífi, „ættarfylgjur“, fullkomnunaráráttu, „erfitt fólk“ og andlegan þroska.
Námskeiðið tekur átta klukkustundir, tvær klukkustundir í senn, tvisvar í viku og fer fram í Fjölskylduhúsi, Grensásvegi 16 a. Að námskeiði loknu geta þátttakendur skráð sig í vinnuhópa sem hittast einu sinni í viku í átta vikur.
Námskeiðið kostar 27.000 krónur og innifalið í verðinu er eitt einstaklingsviðtal sem tekið er áður en námskeiðið hefst, námsgögn og kaffiveitingar.
Fyrsta námskeið ársins 2015 hefst 27. janúar og er skráning hafin.
Hægt er að panta viðtal og/eða skrá sig á námskeið í síma 694-7997 eða senda tölvupóst á: astakro@ismennt.is.

Fyrirlesarar og leiðbeinendur á námskeiðinu eru Ásta Kristrún Ólafsdóttir og Páll Þór Jónsson.

Um fyrirgefningu

Flestar kenningar um það hvernig bæta megi líf sitt leggja áherslu á mikilvægi þess að geta fyrirgefið enda sé reiði og gremja heilsupillandi fyrir líkama og sál.

Fyrirgefning líkt og flest annað er einfalt mál þegar maður er barn. Þá er vandalítið að biðjast fyrirgefningar og fyrirgefa. Það eina sem getur flækt málið er að komst að samkomulagi um hver hafi byrjað og hver eigi að biðjast fyrirgefningar fyrst. Þá skynjar maður afsökunarbeiðni sem hálfgerðan ósigur og viðurkenningu á því að hafa verið aðalsökudólgurinn. Það mál leysist þegar lærist að biðjast afsökunar á eigin hegðun og sínum þætti í átökum án þess að taka á sig alla ábyrgðina á misklíðinni.

Á fullorðinsárum fyrirgefum við áreynslulítið börnum okkar óþekkt þeirra, ekki síst þegar þau iðrast og lofa bót og betrun og við fyrirgefum maka okkar hverskyns yfirsjónir. Við viljum gjarnan að okkur sé fyrirgefið þegar okkur verður á í messunni og við viljum yfirleitt frekar lifa í sátt og samlyndi en ófriði.

Með því að fyrirgefa segjum við að við munum ekki erfa það sem var gert á hlut okkar, að við séum tilbúin til að breiða yfir atvikið og helst ekki tala um það meir. Með fyrirgefningu viljum við og treysta því að atvikið endurtaki sig ekki og við viljum trúa því að sýnd iðrun sé sönn eða að það hafi ekki verið með vilja gert að særa eða meiða.

Áleitnar spurningar og vangaveltur um fyrirgefningu vakna þegar erfitt verður að fyrirgefa eða biðjast fyrirgefningar. Er hægt að fyrirgefa allt? Ætti maður að fyrirgefa allt? Hvað felst í því að fyrirgefa? Hvers vegna er stundum svo erfitt að fyrirgefa?

Það getur verið erfitt að fyrirgefa ef brotið er ekki viðurkennt, fyrirgefningarbeiðni er engin né heldur bætur fyrir skaðann. Ekki kærir maður sig heldur um að fyrirgefa ef manni þykir að með því leggi maður blessun sína yfir hegðun sem særði og geri þar með lítið úr þeim sársauka sem hún olli. Slíkt gæti þá jafnvel orðið þá til þess að sagan endurtæki sig. Loks getur manni þótt að með fyrirgefningu sé veitt einhverskonar syndaaflausn sem ekki sé í mannlegu valdi að veita.

Stundum er ekki skynsamlegt að fyrirgefa í þeim skilningi að breiða yfir, gleyma og leyfa öllu að verða eins og áður. Ef sá sem hefur brotið hefur framið er samviskulaus eða ofbeldisfullur og er ekki líklegur til að breytast, ætti ekki að samþykkja óbreytt ástand. Þá ætti maður forða sér og sínum en láta fyrirgefningu liggja milli hluta. Að minnsta kosti um sinn. Ekki ætti maður heldur að hafa samviskubit yfir því að geta ekki fyrirgefið eða finnast maður minni manneskja fyrir vikið. Í stað þess að reyna að fyrirgefa ætti maður heldur að leitast við að losna við gremju og græða sárin.

Ef maður setur sér það að markmiði að láta liðin atvik ekki valda frekari vanlíðan og erfa ekki það sem gert var á hlut manns, felur það ekki í sér samþykki verknaðarins né að gert sé lítið úr afleiðingum hans. Það þýðir ekki heldur að maður kjósi að viðhalda samskiptum né falla frá ósk um bætur.

Ef það er ekki í mannlegu valdi að veita syndaaflausn ætti maður að geta fallist á að það sé ekki heldur í manna valdi að útdeila dómum og refsingu. Um leið og látið er af kröfu um að fyrirgefa ætti maður að geta látið af þörf fyrir að refsa eða hefna. Ef fyrirgefning er einhversskonar syndaaflausn sem einungis er í valdi Guðs að veita, hlýtur dómur og refsing einnig að vera í valdi Guðs.

Þegar maður losar sig undan kröfunni um að fyrirgefa og lönguninni til að refsa, afsalar maður sér ábyrgð á því að fólk hljóti þau málagjöld sem maður helst vildi. Þá þarf maður hvorki að halda lífi í minningum um hið liðna né eyða tíma né orku í að rifja upp það sem gerðist eða lifa upp aftur sársauka og reiði. Þá þarf maður ekki að láta tilvist annarra eða misgjörðir þeirra spilla lífsgleði sinni.

Samt er það svo að óvelkomnar hugsanir hafa tilhneigingu til að elta mann uppi og liðin atvik leita á hugann. Kannski vegna þess að manni finnst eitthvað ógert eða ósagt eða maður hefur þörf fyrir frekari skilning á því sem gerðist. Meðan einhver von er um frekara uppgjör eða málalok sem maður getur sætt sig við getur verið erfitt að sleppa tökunum. Hvort sem von um slík málalok er raunhæf eða ekki er gagnslítið að viðhalda gremju meðan þeirra er beðið enda gæti sú bið orðið æði löng.

Ef leiðinda hugsanir og gremja truflar líf manns og lífsgleði er hér aðferð sem ég lærði fyrir mörgum árum og hefur reynst mér vel til að láta af óvelkomnum hugsunum. Hún felst í því að skrifa á miða það sem veldur hugarangri, nöfn fólks sem maður er ósáttur við og eins áhyggjuefni sem maður er vanmáttugur gagnvart. Hvert atriði fer á einn miða. Miðana brýtur maður saman og setur í krukku merkta Guði og treystir því að Guð muni sjá um þessi mál meðan maður sinnir öðru.

Þegar maður erfir ekki lengur neitt við neinn, ber ekki kala til nokkurs manns og hið liðna fær ekki hróflað sálarró manns, má segja að maður hafi fyrirgefið. Ef maður kýs að kalla það einhverjum öðrum nöfnum eða bara alls ekki neitt þá er það í góðu lagi. Það sem skiptir máli er að maður hefur öðlast frelsi frá reiði og beiskju og getur lifað í sátt við sjálfan sig, Guð og menn.

Ásta Kristrún Ólafsdóttir ráðgjafi og sálfræðingur